Skipulagsskrá fyrir Hannesarholt ses.

1. grein

Félagið er sjálfseignarstofnun og er nafn þess Hannesarholt. Félagið starfar samkvæmt lögum nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

2. grein

 Heimili hennar er á Grundarstíg 10 og varnarþing er í Reykjavík.

3. grein

Stofnendur Hannesarholts eru Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, Arnór Víkingsson, Salvör Jónsdóttir, Margrét Gunnarsdóttir, Stefán Örn Stefánsson, Grétar Markússon, Gunnar S. Ólafsson, Páll Skúlason og Viðar Víkingsson.

4. grein

Tilgangur stofnunarinnar er að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar fyrir samtímann og framtíðina og hvetja til uppbyggilegrar samræðu um samfélagsleg málefni. Einnig að hlúa að og skapa rými fyrir uppbyggjandi mannlíf og menningarstarfsemi.

Þessum markmiðum verður náð með:

a. Með ýmis konar viðburðum og sýningum að Grundarstíg 10 í Reykjavík. Þar verður m.a. fjallað um upphaf borgarsamfélags á Íslandi og áhersla lögð á upphaf 20. aldar, þegar Íslendingar fengu heimastjórn og þingræði var fest í sessi en húsið að Grundarstíg 10 var byggt af Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands.
b. Fræðslufundum, listviðburðum, samræðufundum, námskeiðshaldi o.fl.
c. Aðstöðu til fræðastarfa
d. Aðstöðu fyrir menningarstarfsemi margvíslegra hópa.
e. Með vefsíðu sem styður þessa framkvæmd.

5. grein

Stofnfé stofnunarinnar er 1.000.000  krónur –  einmilljón krónur sem Ragnheiður Jóna Jónsdóttir og Arnór Víkingsson hafa að jöfnu lagt fram. Fjármuna til starfseminnar verður aflað með veitingastarfemi, leigu á húsnæði, aðgangseyri að fræðslu-og menningarviðburðum, framlögum hollvina Hannesarholts og öðrum styrkjum sem stofnuninni hlotnast.

6. grein

Stofnunin er staðsett í íbúðahverfi og einsetur sér að starfa í góðu samkomulagi og friði við íbúa í næsta nágrenni við Grundarstíg 10.

7. grein

Hvorki stofnendur né aðrir njóta sérréttinda í stofnuninni.Verði arður af rekstri sjálfseignarstofnunarinnar skal honum einungis ráðstafað til frekari uppbyggingar í starfsemi stofnunarinnar í samræmi við tilgang hennar, sbr. samþykktir þessar. Hugsanlegt tap af starfsemi stofnunarinnar verður greitt úr sjóðum félagsins eða fært á næsta reikningsár.

8. grein

Stjórn stofnunarinnar getur ákveðið hækkun stofnfjár með færslu úr frjálsum sjóðum stofnunarinnar og óráðstöfuðum hagnaði samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi og með arfi, gjöfum og öðrum framlögum, t.d. framlögum nýrra aðildarfélaga sem stofnunin hefur þegið til hækkunar á stofnfé. Ef breytingar á samþykktum þessum reynast nauðsynlegar vegna hækkunar stofnfjár gerir stjórn stofnunarinnar þær. Ekki er heimilt að hækka stofnfé með viðtöku skuldbindinga um að inna af hendi verk eða þjónustu.

9. grein

Sjálfseignastofnun þessi ber ein fjárhagslega ábyrgð á skuldbindingum sínum með eignum sínum.

Í samræmi við tilgang stofnunarinnar er stjórn hennar heimilt að afla fjár til verkefna hennar sbr . 4. grein  og einnig  með eftirfarandi hætti:
Með lántökum frá  fjármálastofnunum.
Með fjáröflun á almennum markaði.
Með gjöfum eða arfi sem stofnuninni kunna að berast og með öðrum hætti sem stjórn stofnunarinnar telur henni vera til hagsbóta og tilhlýðilegt vera.

Stjórn stofnunarinnar er heimilt að ráðstafa hagnaði sem kann að verða af rekstri til verkefna stofnunarinnar, í samræmi við tilgang hennar, en einnig er stjórn heimilt að leggja fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu hennar.  Framlögum til stofnunarinnar er skipt þannig:

a)     Almennt framlag til starfseminnar

b)    Sérgreind framlög til rannsókna- og fræðastarfa

c)     Sérgreind framlög til menningarstarfsemi

d)    Aðrar gjafir til stofnunarinnar

10. grein

Stjórn Hannesarholts ses. skal skipuð fimm einstaklingum og fjórum til vara: Þrír fulltrúar tilnefndir af 1904 ehf, einn fulltrúi tilnefndur af menningarráði Hannesarholts (sjá 15. grein) og einn af hollvinum Hannesarholts (sjá 16. grein). Tveir varamenn skulu tilnefndir af stjórn 1904 ehf, einn af menningarráði og einn af hollvinum  Hannesarholts. Varamenn hafa rétt til setu á fundum stjórnar og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Framkvæmdastjóri Hannesarholts eða staðgengill hans hefur einnig rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt.

Fyrstu stjórnarmenn og varamenn skulu tilnefndir á fyrsta aðalfundi Hannesarholts. Tilnefningu stjórnarmanna og varamanna verður í framhaldi þannig háttað: Árið 2013 tilnefndir tveir fulltrúar og einn varamaður 1904 ehf, og einn fulltrúi og einn varamaður hollvina Hannesarholts; árið 2014 tilnefndir einn fulltrúi og einn varamaður 1904 ehf, og einn fulltrúi og einn varamaður menningarráðs Hannesarholts; og þannig koll af kolli. Stjórnarmenn og varamenn eru tilnefndir til tveggja ára í senn. Segi einhver stjórnarmaður af sér eða geti ekki gengt stjórnarstörfum vegna veikinda eða annarra langvarandi forfalla skal varamaður hans taka hans fasta sæti í stjórninni.

Stjórnarmenn skulu vera lögráða og fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um sjálfseignastofnanir sem stunda atvinnurekstur, hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Auk þess skulu stjórnarmenn vera almennt í skilum og mega ekki vera skráðir í vanskilaskrár vegna verulegra vanskila. Formaður stjórnar getur krafið stjórnarmenn og varamenn um gögn er þessi atriði varða og stjórnarmenn geta krafið formann um sömu gögn. Ef upp kemur, varðandi meðlimi stjórnar eða varamenn, að einhver þeirra uppfyllir ekki lengur framangreind skilyrði getur stjórnin með meirihluta greiddra atkvæða vikið viðkomandi úr stjórn.

11. grein

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, en kosnir skulu a.m.k. formaður, ritari, sem jafnframt skal vera varaformaður og gjaldkeri.  Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi.  Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina.

Formaður stjórnar boðar fundi sem skal halda svo oft sem tilefni er til en ekki sjaldnar en sex sinnum á ári. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfunda.  Sama rétt á framkvæmdastjóri.

Stjórnarfundum stjórnar formaður eða varaformaður í hans stað. Ritari skal sjá til þess að nákvæm fundargerð, m.a. um hverjir séu viðstaddir, um ákvarðanir, bókanir og atkvæðagreiðslur, sé haldin. Fundargerðin skal undirrituð af öllum sem viðstaddir voru viðkomandi fund.

Stjórn er ákvörðunarbær ef meirihluti stjórnar sækir fund. Niðurstaða mála ræðst af einföldum meirihluta. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns, eða varaformanns ef formaður sækir ekki fund, úrslitum. Mikilsháttar ákvarðanir, svo sem kaup og sala fasteigna, lántökur og gerð samninga um meiriháttar viðskipti, má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi átt kost á að kynna sér viðkomandi málefni og fjalla um það á stjórnarfundi, sé þess nokkur kostur.

Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar fer með málefni hennar og eru meginskyldustörf stjórnar eftirtalin:
a) Að sjá til þess, að skipulag sjálfseignarstofnunarinnar og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og gæta þess að starfsemi stofnunarinnar sé á hverjum tíma í samræmi við tilgang hennar samkvæmt samþykktum þessum.
b) Að hafa stöðugt og ítarlegt eftirlit með öllum rekstri stofnunarinnar, m.a. að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna.
c) Að ráða framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Stjórn ákveður laun framkvæmdastjóra og önnur ráðningarkjör og setur framkvæmdastjóra starfslýsingu.
d) Að koma fram fyrir hönd stofnunarinnar fyrir dómstólum og stjórnvöldum.
e) Að ákveða hvort, og þá hverjum, skuli veitt prókúruumboð umfram það sem mælt er fyrir um í samþykktum þessum.
f) Að gera tillögur til breytinga á samþykktum þessum.
Meirihluti stjórnar ritar firma stofnunarinnar.

Stjórnarmenn og varamenn skulu hafa aðgang að öllum bókum og skjölum stofnunarinnar.

12. grein

Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri stofnunarinnar og skal hann í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu sem stjórnin ákveður og fara að fyrirmælum hennar. Til daglegs reksturs teljast ekki ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar hennar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi stofnunarinnar. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.

Framkvæmdastjóra ber að veita stjórn, stjórnarmönnum, varamönnum og endurskoðanda allar upplýsingar sem þeir kunna að óska eftir.

Framkvæmdastjóri hefur prókúruumboð fyrir stofnunina vegna allrar daglegrar starfsemi hennar. Þegar um er að ræða mikilsháttar útgjöld skal formaður stjórnar, ásamt framkvæmdastjóra, árita reikning til greiðslu.

Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn í samráði við formann stjórnar. Stjórn ákveður launakjör framkvæmdastjóra og annarra fastra starfsmanna. Stjórnin ákveður einnig þóknun fyrir setu í stjórn og menningarráði Hannesarholts.

Framkvæmdastjóri annast reikningshald fyrir stofnunina og skal hann sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna stofnunarinnar sé með tryggilegum hætti.

13. grein

Aðalfundur  Hannesarholts skal haldinn að hausti hvers árs fyrir 15. október. Til aðalfundar skal boðað með tilkynningu á heimasíðu og tölvupósti með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi hefur stjórn Hannesarholts ásamt varamönnum, fulltrúar í menningarráði, framkvæmdastjóri Hannesarholts og hollvinir Hannesarholts. Allir aðilar á aðalfundi hafa málfrelsi og tillögurétt en eingöngu stjórnarmenn hafa atkvæðisrétt.

Á dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

Kjör fundarstjóra og ritara aðalfundarins

Skýrsla stjórnar og umræður um hana

Endurskoðaðir reikningar lagðir fram

Breytingar á skipulagsskrá

Tilnefning formanns, ritara (sem jafnframt er varaformaður) og gjaldkera

Önnur mál

14. grein

Tillögur um breytingar á skipulagsskrá skulu berast formanni stjórnar a.m.k. mánuði fyrir aðalfund og berast stjórnarmönnum, varamönnum, menningarráði og hollvinum Hannesarholts til kynningar a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund.

Heimilt er að breyta samþykktum stofnunarinnar og þarf til þess samþykki allra stjórnarmanna stofnunarinnar á tveimur fundum stjórnar, sem haldnir skulu með minnst einnar viku millibili, svo og samþykki þeirra aðila sem hafa lagt fram minnst 2/3 hluta þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir.  Til að auka fjárhagslegar skuldbindingar aðila þarf þó samþykki  þeirra allra.

15. grein

Stjórn Hannesarholts skipar fjóra aðila í menningarráð. Hver fulltrúi er tilnefndur til 2ja ára í senn. Menningarráð er stjórn og framkvæmdastjóra Hannesarholts til ráðgjafar um stefnumörkun og skipulag menningarstarfsemi stofnunarinnar. Menningarráðið tilnefnir einn fulltrúa og einn varamann í stjórn Hannesarholts skv.11. grein. Menningarráð heldur fundi eins og oft og tilefni er til en ekki sjaldnar en þrisvar sinnum á ári. Framkvæmdastjóri Hannesarholts situr að öllu jöfnu fundi menningarráðs og er menningarráði til aðstoðar varðandi upplýsingaöflun og úrvinnslu hugmynda eftir því sem við á.

16. grein

Með árlegu fjárframlagi til stofnunar Hannesarholts geta einstaklingar, samtök, fyrirtæki og stofnanir orðið hollvinir Hannesarholts. Lágmarks fjárframlag skal ákveðið á aðalfundi Hannesarholts. Með því að gerast hollvinir stuðla viðkomandi að vexti og viðgangi stofnunarinnar. Hollvinir öðlast rétt til setu á ársfundi og hafa auk þess einn fulltrúa og einn varamann í stjórn Hannesarholts. Einstakir hollvinir skulu tilkynna framboð sitt til stjórnarsetu mánuði fyrir kjör samkvæmt 10. grein. Séu tveir eða fleiri hollvinir í framboði skal velja á milli fulltrúanna með kosningu á heimasíðu Hannesarholts viku fyrir aðalfund. Réttmæti atkvæðagreiðslu verður tryggð með því að tengja einstök atkvæði við persónubundin lykilorð. Sá fulltrúi hlýtur kosningu sem fær flest atkvæði.

17. grein

Reikningsár Hannesarholts er almanaksárið og skal stjórnin ráða löggiltan endurskoðanda til að endurskoða reikninga stofnunarinnar. Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins. Fyrsta reikningstímabil er frá stofnun Hannesarholts til næstu áramóta.

Endurskoðandi skal kanna bókhaldsgögn stofnunarinnar og aðra þætti er varðar rekstur hennar og stöðu í samræmi við lög og góðar endurskoðunarvenjur. Endurskoðandi skal hafa lokið endurskoðun ársreiknings eigi síðar en tveim vikum fyrir aðalfund og skal hann þá afhenda stjórn endurskoðaðan ársreikning ásamt athugasemdum sínum, ef einhverjar eru. Endurskoðaður ársreikningur, ásamt athugasemdum endurskoðanda, skulu lagðar fyrir aðalfund til samþykktar.

Eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, skal stjórnin senda ársreikningaskrá ársreikninginn, ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðanda og upplýsingum um hvenær ársreikningurinn var samþykktur.

18. grein

Með tillögur um sameiningu við annan lögaðila skal farið með sem breytingar á samþykktum þessum.

Komi fram tillaga um slit stofnunarinnar skal greiða um hana atkvæði á aðalfundi, en slík tillaga getur ekki talist samþykkt nema því aðeins að a.m.k. 2/3 hlutar stjórnar ljái henni jáyrði. Stjórnin gerir þá tillögur um hvernig fjármunum hennar sé ráðstafað í samræmi við markmið hennar eða skyld markmið.

19. grein

 Þar sem ákvæði samþykktar þessarar segja ekki til um hvernig með skuli fara, skal hlíta ákvæðum laga nr. 33/1999 um sjálfseignastofnanir sem stunda atvinnurekstur, svo og öðrum lagaákvæðum sem við geta átt.

Þannig samþykkt á stofnfundi Hannesarholts ses. í Reykjavík þann 5. október 2012.