Hannes Hafstein og Heimsmarkmiðin
Sagan tengir fallega við heimsmarkmiðin, þar sem auðvelt er að benda á að Hannes Hafstein, okkar fyrsti íslenski ráðherra, sem stóð vaktina þegar þjóðin stökk inn í nútímann á ógnarhraða, hafi unnið að flestum þeim málefnum sem falla undir heimsmarkmiðin, fyrir meira en hundrað árum síðan. Málefnin standa fyrir atriði sem framsýnt fólk að byggja upp samfélag á öllum tímum hefur stefnt að. Heimsmarkmiðin sýna samstöðuna og þá sýn að framfarirnar þurfi að ná til heimsbyggðarinnar allrar. Til að heimsmarkmiðin náist þurfa bæði stjórnvöld og almenningur að gera þau að sínum.
Börnin og heimsmarkmiðin
Ungviði nútímans er ekki öfundsvert og er það í hlutverki okkar fullorðnu að hlúa að því, enda er ágjöfin sterk, þar sem á því bylja fréttir um endalok jarðarinnar alla daga. Til að vinna gegn kvíða og heimsendaangist er lykilatriði að beina sjónum barna og ungmenna í átt að lausnamiðaðri hugsun og tækifærum til að hafa áhrif. Hingað til hafa kraftar ungmenna beinst að því að hrópa á torgum til að vekja fullorðna fólkið til ábyrgðar, en mikilvægt er að eitthvað taki við og þau geti sjálf lagt hönd á plóg. Þar er myndin um maurana nærtæk. Þeir eru agnarsmáir, en geta samt flutt fjöll, því þeir vinna allir að sama marki. Þeirri hugsun þurfum við að deila með börnum og gefa þeim hlutverk í heimsmarkmiðavinnunni.
Heimsmarkmiðin hversdags
Þegar leysa þarf vandamál þarf að brjóta þau niður í einstakar aðgerðir sem hægt er að ráðast í til að leysa þau. Þegar vandinn er jafn gígantískur og heimsmarkmiðin hyggjast taka á þarf að brjóta niður viðbrögð í aðgengileg skref sem venjulegt fólk getur stigið, hversdags, á heimilum sínum, jafnt börn sem fullorðnir. Hannesarholt mun safna saman hugmyndum um slík aðgengileg skref og deila þeim með gestum.
Hannesarholt sem heimili
Frá opnun hefur Hannesarholt lagt áherslu á heimilisbraginn, enda var í húsinu heimili fólks í 92 ár. Húsið er búið húsmunum frá síðustu 120 árum, þannig að þegar gestir koma í húsið tekur á móti þeim kunnuglegt og hlýlegt viðmót, sem minnir marga á heimsókn til aldraðs ættingja. Gestir eru alltaf velkomnir þegar húsið er opið, jafnvel þótt þeir eigi ekki formlegt erindi. Þeir geta komið og unað sér á risloftinu til dæmis, þótt margvíslegir atburðir séu í gangi í húsinu samtímis í öðrum vistarverum. Þessi heimilisandi skapar tækifæri til að færa gestum leiðir til að taka upp heimsmarkmiðavænar venjur á sínum heimilum.
Heimsmarkmiðin við matarborðið
Við opnun Hannesarholts voru gerðir borðdúkar með molum sem tengjast sögu Hannesar Hafstein í samstarfi við Áslaugu Jónsdóttur, glefsum úr bréfum hans, upplýsingum og ljóðum. Þessi dúkur hefur þjónað sem nokkurs konar „conversation piece“ og hefur skapað samræður og spurningar milli gesta innbyrðis og gesta og starfsfólks. Nú er í vinnslu nýr dúkur þar sem heimsmarkmiðin eru í forgrunni og verkefni Hannesar Hafstein sem falla undir heimsmarkmiðin ásamt áskorun um að velja sér heimsmarkmið til vinna að. Tilgangur er sá sami og á eldri dúknum, að vekja athygli, hvetja til umræðu og kveikja áhuga. Að benda á að uppbygging íslensks samfélags, í þessu tilviki af Hannesi Hafstein, hafi verið unnin á sömu nótum og heimsmarkmiðin í dag, tengir þau við rætur okkar, og gerir þau nærtæk, ekki einhverjar tilskipanir frá útlöndum sem henta ekki Íslandi, eins og stundum heyrist með erlend viðmið. Þessi einstaklingur vann að þessum málefnum, hvaða markmið kýst þú?
Innblástur að utan – tækifærin á stóra sviðinu
Í stefnuskrá Hannesarholts er meðal annars rætt um „að þiggja andblæ að utan“ enda skildi Hannes Hafstein mikilvægi þess fyrir íslendinga í þá tíð, að þiggja menningarlega strauma frá Danmörku. Hannesarholt hefur verið í samstarfi við og hýst erlenda aðila síðastliðin tvö ár í tengslum við heimsmarkmiðin, Amber Nystrom og Ralph Reutiman, sem komu hingað af áhuga á 5 markmiðinu, jafnrétti kynjanna, til að finna út úr hvers vegna íslendingar stæðu sig betur en aðrir í að veita konum brautargengi í samfélaginu. Þau hafa ílengst og verið gestir Hannesarholts undanfarin misseri. Amber og Ralph bjóða fram stórt tengslanet sitt um heimsbyggðina, sem bíður spennt eftir að Ísland stigi inn í þau tækifæri sem Ísland gæti skapað og því boðist í samstarfi við útlönd um heimsmarkmiðin. Ótalmargt í gerð íslensks samfélags og stjórnskipunar gerir það ákjósanlegan leiðtoga í heimsmarkmiðavegferðinni, sem útlendingar sjá kannski fremur en við. Nú er tíminn til að stíga inn á það svið og Hannesarholt gæti hjálpað í þeim dansi.