HEIMSPEKISPJALL – „LÍKAMLEG GAGNRÝNIN HUGSUN“
10/10/2018 @ 20:00 - 21:00
Íslenskir heimspekingar hafa lengi fengist við mótun og kennslu gagnrýninnar hugsunar, allt frá því að Páll Skúlason hélt útvarpserindi sín um hugtakið snemma á 9. áratug síðustu aldar. Þetta mikilvæga hugtak, og þá ekki síður iðkun þess sem það nefnir, kallar á stöðuga endurskoðun og greiningu. Markmið rannsóknaverkefnisins „Líkamleg gagnrýnin hugsun“, sem hlaut styrk úr Rannsóknasjóði (Rannís) snemma árs 2018, er að skoða gagnrýna hugsun í tengslum við þá staðreynd að hinn gagnrýni hugsuður er alltaf líkamleg vera. Þannig er tekist á við þá tvíhyggju skynsemi og tilfinninga sem reynst hefur lífseig, og reynt að móta aðferðir til að taka líkamann með í reikninginn þegar gagnrýnin hugsun er iðkuð og kennd. Í heimspekispjallinu 10. október munu Guðbjörg R. Jóhannesdóttir og Björn Þorsteinsson bregða ljósi á rannsóknaverkefnið og setja það í samband við margvíslegar hefðir og hugmyndir. Frítt inn.
Veitingastofurnar verða opnar frá kl.18.30. Borðapantanir í síma 511-1904 eða á hannesarholt@hannesarholt.is