Hleð Viðburðir

Á inniskónum er spjalltónleikaröð Magnúsar Jóhanns píanóleikara þar sem hann fær til sín gesti víðsvegar að úr tónlistarlífi íslendinga. Magnús setur tónlist viðmælenda sinna í nýjan búning með dyggri aðstoð hljóðgervla, trommuheila og hljómborða af ýmsum toga og spyr þá svo spjörunum úr. Gestur Magnúsar þann 14. júní nk. er tónlistarundrið Bjarni Daníel Þorvaldsson.

Bjarni Daníel er gítarleikari, söngvari og lagahöfundur sem hefur verið hluti af mörgum og mismunandi tónlistarverkefnum í gegnum tíðina. Sem dæmi um þau ævintýri sem hafa á daga hans drifið eru hljómsveitirnar Vára, bagdad brothers, Supersport! og stofnun listasamlagsins post-dreifing svo að nokkur dæmi séu tekin. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í grasrótarsenu Reykjavíkur frá því hann var á menntaskólaaldri og undanfarin misseri hefur hann farið að koma fram einn síns liðs í auknu mæli og það gæti gerst að hann bjóði upp á einyrkjaplötu nú á næstunni.

Magnús og Bjarni Daníel kynntust fyrst í Verzlunarskóla Íslands þar sem þeir voru saman í Málfundafélagi og Stuðmannasöngleik. Síðan þá hefur Magnús fylgst með ferli Bjarna úr fjarska og dáðst að verkum hans en hingað til hafa þeir ekki komið mikið fram saman. Hljómleikar þeirra í Hannesarholti verða því sjaldgæft færi á því að heyra þá koma fram saman. Þeir munu telja í vel valin lög eftir Bjarna og ræða sköpunarferli hans. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00. Húsið opnar 19:30 og gengið er inn í Hljóðberg í Hannesarholti af Skálholtsstíg.

Upplýsingar

Dagsetn:
14. júní
Tími:
20:00 - 21:30
Viðburður Category:

Staðsetning

Hannesarholt
Grundarstígur 10
Reykjavík ,
+ Google Map