„Ástin, drekinn og dauðinn“
23/04/2015 @ 20:00 - 21:00
| ISK1000Dagur bókarinnar í Hannesarholti
Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur og þjóðfræðingur segir gestum í myndskreyttu erindi frá nýrri bók sinni, sem ber titilinn Ástin, drekinn og dauðinn. Þar lýsir hún vegferð sinni og Hennar heittelskaða með sjúkdómnum sem þau vissu að myndi draga hann til dauða og fyrsta árinu eftir að hún varð ekkja. Bókin veitir í senn innsýn í veröld krabbameinsins og djúpa sorg þess sem hefur elskað og misst. En hún er ekki síður óður til kærleikans, hvatning til að lifa í árvekni og sættast við að dauðinn er órjúfanlegur hluti af lífinu.
Þegar Vilborg kynnti bók sína í síðasta mánuði yfirfylltist Hannesarholt og því er viðburðurinn nú endurtekinn. Ástin, drekinn og dauðinn hefur hlotið afar góðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda.
,,Bók um mikilvægt efni.“ – Egill Helgason / Kiljan
„Afskaplega raunsæ, falleg og algjörlega væmnislaus … Það geta allir samsamað sig og fundið styrk í þessari bók … Afrek.“ – Friðrika Benónýsdóttir / Kiljan
„Það er eitthvað við látleysið í stílnum hjá henni sem rímar við þetta tilfinningaþrungna æðruleysi sem virðist einkenna viðbrögð þeirra beggja og glímuna við þennan sjúkdóm … Mjög sterk bók og fallega skrifuð.“ Þorgeir Tryggvason / Kiljan
„Bókin er nístandi fögur og fjallar á svo elskulegan hátt um helstu og æðstu kenndir lífsins að lesandinn kemst á tíðum við án þess þó að fyllast væmni eða velgjutilfinningu. Þar er ritlist Vilborgar komin.“ Íris Gunnarsdóttir / Hringbraut
„Sannarlega bók sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.“ Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts
Viðburðurinn fer fram í Hljóðbergi. Miðasala á midi.is.
Í veitingastofum Hannesarholts verður hægt að gæða sér á matarmikilli súpu og heimabökuðu brauði eða smurbrauðsplatta áður en viðburðurinn hefst. Borðapantanir í sima: 511 1904
Ljósm. Elsa Björg Magnúsdóttir