Bókakaffi – að yrkja hamingjuna
20/03/2016 @ 16:00
| FreeAð yrkja hamingju
Í tilefni af alþjóðlegum degi hamingjunnar 20. mars
Hamingjuljóð og hollráð um líf og hamingju munu hljóma á kaffihúsinu í Hannesarholti á alþjóðlegum degi hamingjunnar 20. mars. Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Embætti landlæknis hafa tekið höndum saman um að fagna deginum með ljóðum, tónlist og hugvekjum um mikilvægi hamingjunnar í daglegu lífi okkar.
Ljóðskáldin Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Bhikshuni Weisbrot flytja ljóð um hamingjuna. Gunnar Hersveinn, rithöfundur, og Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis, flytja erindi um hamingjuna í samtímanum og tríóið Reykjavik Centre Music Group leikur tónlist.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld, þýðandi, tónlistarmaður og útgefandi er landsþekktur og eftir hann liggja ljóðabækur og önnur skáldrit fyrir börn og fullorðna svo og ljóðaþýðingar. Nýjasta ljóðabók hans með eigin ljóðum er Sjálfsmyndir frá árinu 2012.
Bhikshuni Weisbrot er skáld, ritstjóri og formaður rithöfundasambands Sameinuðu þjóðanna (United Nations SRC Society of Writers). Hún er sérlegur gestur okkar á þessum hátíðardegi. Weisbrot, ásamt Elizabeth Lara og Darrel Alejandro Holnes, ritstýrði safni samtímaljóða undir heitinu Happiness: The Delight-Tree sem gefið var út á alþjóðadegi hamingjunnar árið 2015 og mun hún lesa ljóð úr bókinni ásamt eigin ljóðum.
Gunnars Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, er þekktur fyrir gefandi nálgun sína á málefni líðandi stundar og hefur hann m.a. fjallað um hvernig við ræktum okkar innri mann. Hann nefnir erindi sitt, „Listin, frelsið og hamingjan“.
Sigrún Daníelsdóttir nefnir sitt erindi „Skiptir hamingja máli fyrir heilbrigði þjóða?“ Sigrún er kunn fyrir bók sína Líkamsvirðing fyrir börn, hún hefur kennt sálfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og starfar nú sem verkefnastjóri við geðrækt hjá Embætti landlæknis.
Reykjavik Centre Music Group er tónlistarhópur sem hefur sérhæft sig í tónlist Sri Chinmoy. Hópurinn hefur haldið fjölda tónleika og spilað undir m.a. í hugleiðslustundum og á viðburðum á vegum Sri Chinmoy miðstöðvarinnar hér á landi.
Hamingjustundin í Hannesarholti er öllum opin og ekkert kostar inn. Hún fer fram á kaffihúsinu og stendur í um klukkustund. Viðburðurinn verður á íslensku og ensku.