Bókakaffi til heiðurs Kristjáni Árnasyni
05/11/2017 @ 16:00
Kristján Árnason hefur flutt mörg merk verk bókmenntasögunnar heim til Íslands með þýðingum sínum og í vor sendi hann frá sér bókina Það sem lifir dauðann af er ástin, safn af ljóðaþýðingum allt frá grískum og rómverskum fornkvæðum til samtímakvæða. Kristján Árnason hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin árið 2010 fyrir þýðingu sína á Ummyndunum eftir Ovid, og hann var gerður að heiðursfélaga Bandalags þýðenda og túlka árið 2013, enda hefur hans sent frá sér margar vandaðar bókmenntaþýðingar í gegnum tíðina auk annarra menningarstarfa.
Sunnudaginn 5. nóvember nk. verður efnt til kaffiboðs í Hannesarholti kl. 16-18 til að fagna bókinni og heiðra Kristján fyrir ómetanlegt framlag hans til íslenskrar menningar. Góðir gestir taka þátt í dagskránni, m.a. ætlar Sölvi Björn Sigurðsson rithöfundur að segja nokkur orð um Kristján og Árni Matthíasson blaðamaður að tala um þýðingar hans á söngtextum Theodorakis, en gestir fá einnig að hlýða á nokkur lög. Leikararnir Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz lesa upp ljóð úr bókinni.
Bandalag þýðenda og túlka stendur að dagskránni í samvinnu við Hannesarholt og býður gestum upp á kaffi og kleinur, en einnig verður hægt að kaupa aðrar veitingar. Reykjavíkurborg styrkti viðburðinn.