Davíðsljóð – „á vondra manna jörð“
25/09/2016 @ 16:00 - 17:00
| kr.1500Valgerður H.Bjarnadóttir fjallar um hugsjónina í verkum Davíðs Stefánssonar í dagskrá sem hú nefnir „á vondra manna jörð.“ Davíð Stefánsson var hugsjónamaður. Hann var frá unga aldri gagnrýninn á nær allar stofnanir samfélagsins og á mannanna verk, jafnt sín eigin sem annarra. Hann aðhylltist sósíalisma um tíma, var náinn vinur Einars Olgeirssonar, Þóru Vigfúsdóttur og fleiri í hópi ungra sósíalista, en svo fór hann til Sovét á alheimsþing og kom heim fremur afhuga þeirri stofnun.
En ljóðin hans og önnur verk bera þess glögg merki að hann hataði hræsnina og valdið, hvort sem var trúarlegt, pólitískt, efnahagslegt eða persónulegt, og hann berst gegn því alla ævi. Hann gerði sér ljósa grein fyrir að ekki dugir að horfa bara á aðra, hann barðist líka gegn þeim þáttum í sjálfum sér.
Brot úr ljóðinu BARNIÐ Í ÞORPINU:
Hann veiktist snemma af kulda og kröm,
því kjör hans voru hörð.
Og oft er minna um mildi og líkn
en messur og bænagjörð.
Hann er og verður vitskert barn
á vondra manna jörð.
Í þessari dagskrá mun Valgerður flytja nokkur af hugsjónaljóðunum, lesa kafla úr leikritum og úr bréfum Davíðs til vina sinna og leyfa huganum að reika um það sem kann að vera í kringum ritverk hans og á bak við þau.
Valgerður H. Bjarnadóttir ólst upp með ljóðum og öðrum verkum Davíðs, eins og þúsundir annarra Íslendinga. Hún las þau, lærði og tengdist sumum þeirra sterkum böndum. S.l. sumur hefur hún gegnt hlutverki húsfreyju í Davíðshúsi og sökkt sér á ný inn í þennan heim ástar, sögu, trúar, ævintýra og þjáningar, sem fáir hafa náð að mála eins sterkum litum og Davíð. Þar hefur hún vikulega verið með dagskrá um ljóðin og líf Davíðs út frá ólíkum sjónarhornum og Hannesarholt býður upp á sýnishorn úr þeirri dagskrá sunnan heiða. Valgerður er félagsráðgjafi með MA í trúarheimspeki og menningarsögu.
Dagskráin fer fram í veitingastofu Hannesarholts kl. 16 til 17. Gott er að mæta ekki seinna en kl. 15:30 til að fá borð og geta fengið sér veitingar áður en dagskráin hefst.