Hleð Viðburðir

“Að baki tímans tjalda”  – Leiklistin í lífi Davíðs Stefánssonar

Valgerður H. Bjarnadóttir

Þótt Davíð Stefánsson sé best þekktur sem ljóðskáld, var leiklistin honum einnig mjög hugleikin og hann sendi frá sér fjögur leikrit, auk ljóðabókanna 10 og skáldsögunnar Sólon Íslandus. Þekktasta og vinsælasta leikritið er Gullna hliðið, sem var frumsýnt 1941 og samið upp úr þjóðsögunni um sálina hans Jóns míns.  Prologus Gullna hliðsins hefst á þessum orðum:

“Hulið er margt að baki tímans tjalda,

sem trú og siðir vorir mega gjalda.

Í bæjartóttum bleikra eyðidala

birtist þeim margt, sem heyra steininn tala.

Og gull má oft í rústum finna.

Á gamla elda kaldar hlóðir minna.”

Í öllum fjórum leikritunum tekur skáldið gull úr gömlum rústum, sem hann nýtir til að endurspegla samtíma sinn um leið og hann rifjar upp söguna. Fyrsta leikverk Davíðs var Munkarnir á Möðruvöllum sem sýnt var fyrst 1926. Vopn guðanna er frumsýnt 1944 og Landið gleymda 1953.  Síðari verkin fengu almennt góða dóma, en hlutu fremur lélega aðsókn, þóttu of þung og hafa lítið verið sýnd. Þau hafa þó á ýmsan hátt elst vel, eru full af boðskap og hugsjónum sem eiga ekki síður erindi við okkur í dag, en þá.

Í þessu spjalli mun Valgerður H. Bjarnadóttir fjalla um leikritin, tengja þau ljóðunum og velta fyrir sér hvað skáldinu lá á hjarta og hvernig leikritin endurspegla hugmyndir hans og líf.

Valgerður H. Bjarnadóttir ólst upp með ljóðum og öðrum verkum Davíðs, eins og þúsundir annarra Íslendinga. Hún las þau, lærði og tengdist sumum þeirra sterkum böndum.  S.l. sumur hefur hún gegnt hlutverki húsfreyju í Davíðshúsi og sökkt sér á ný inn í þennan heim ástar, sögu, trúar, ævintýra og þjáningar, sem fáir hafa náð að mála eins sterkum litum og Davíð. Þar hefur hún vikulega verið með dagskrá um ljóðin og líf Davíðs út frá ólíkum sjónarhornum og Hannesarholt býður upp á  sýnishorn úr þeirri dagskrá sunnan heiða.  Valgerður er félagsráðgjafi með MA í trúarheimspeki og menningarsögu.  

Dagskráin fer fram í veitingastofu Hannesarholts kl. 16 til 17.  Gott er að mæta ekki seinna en kl. 15:30 til að fá borð og geta fengið sér veitingar áður en dagskráin hefst.

Miðaverð kr. 1.500.-  og miðasala á www.midi.is

Upplýsingar

Dagsetn:
15/01/2017
Tími:
16:00
Verð:
kr.1500
Viðburður Category:
Tök Viðburður:
, ,
Vefsíða:
https://midi.is/atburdir/1/9931/Davidsljod_i_Hannesarholti