Davíðsljóð – Rödd konunnar
10/04/2016 @ 16:00
| kr.1500Rödd konunnar í ljóðum Davíðs Stefánssonar
Honum eru hugleiknar konurnar úr sögunni, sem margar höfðu horfið í óminnisdjúpið. Ein þeirra er Þóra Gunnarsdóttir, sem í ljóðinu Minning, minnist Jónasar Hallgrímssonar og ferðar þeirra yfir fjöll og dali, um leið og hún harmar hlutskipti kvenna:
Við erum sungnar í sekt og bann,
en sagðar hvíla á rósum.
Því allar hljótum við einhvern mann,
en ekki þann sem við kjósum.Um þessi ljóð, konurnar og sögu þeirra, og ekki síst tengsl Davíðs við þær, fjöllum við í þetta sinn og höldum áfram vefa munstrin og spinna þræðina í Davíðsábreiðuna okkar.Dagskráin er í veitingastofu Hannesarholts kl. 16 til 17. Gott er að mæta tímanlega til að fá borð og geta fengið sér veitingar áður en dagskráin hefst.
Valgerður H. Bjarnadóttir ólst upp með ljóðum og öðrum verkum Davíðs, eins og þúsundir annarra Íslendinga. Hún las þau, lærði og tengdist sumum þeirra sterkum böndum. S.l. sumar gegndi hún hlutverki húsfreyju í Davíðshúsi og sökkti sér þá á ný inn í þennan heim ástar, sögu, trúar, ævintýra og þjáningar, sem fáir hafa náð að mála eins sterkum litum og Davíð. Vikulega var hún þar með dagskrá um ljóðin og líf Davíðs út frá ólíkum sjónarhornum og nú býður Hannesarholt upp á dagskrá sunnan heiða. Valgerður er félagsráðgjafi með MA í trúarheimspeki og menningarsögu.