Í návígi – Domenico Codispoti
06/03/2016 @ 16:00
| kr.3000Á tónleikum sínum í Hannesarholti leikur Domenico Codispoti úrval af stuttum verkum eftir vel þekkt tónskáld, sem hann hefur í gegnum tíðina leikið oft sem aukalög. Þetta er aðgengileg og falleg efnisskrá og uppskrift að notalegu síðdegi, sem allir ættu að geta notið.
Domenico Codispoti, píanóleikari er fæddur árið 1975 í Catanzaro á Suður-Ítalíu. Hann stundaði nám við Tónlistarháskólann Pescara og útskrifaðist með láði. Þá hélt hann til Bandaríkjanna og stundaði nám hjá Joaquin Achucarro í Southern Methodist University í Dallas. Eftir glæsilegan námsferil gerði hann víðreist og hefur haldið fjölda einleikstónleika og leikið með virtum sinfóníuhljómsveitum í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.
Codispoti hefur hvarvetna hlotið lof áheyrenda og gagnrýnenda fyrir leik sinn og unnið til fjölda verðlauna. Hann hefur verið fenginn til að dæmi í alþjóðlegum píanókeppnum og hin síðari ár hefur hann fengist í auknum mæli við að leiðbeina á meistaranámskeiðum víða um heim. Codispoti hefur leikið inn á geisladiska fyrir alþjóðleg útgáfufyrirtæki sem innihalda píanóverk eftir Chopin, Schumann, Liszt, Granados, Rachmaninov og Cesar Franck og einnig geisladisk með kammerverkum eftir ítalska tónskáldið Cilea.
Frá árinu 2000 hefur Codispoti reglulega sótt Ísland heim og haldið fjölda einleikstónleika, verið einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og leiðbeint ungum og efnilegum píanóleikurum á meistaranámskeiðum. Codispoti býr í Róm en auk starfa hans sem konsertpíanisti þá sinnir hann kennslustörfum í Tónlistarskólanum Lorenzo Perosi í Campobasso á Ítalíu. Domenico Codispoti er í ár tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum flytjandi ársins ásamt Nicola Lolli fyrir tónleika þeirra á Listahátíð í Reykjavík á síðasta ári.