Enginn karlaklúbbur – Sísí Ingólfsdóttir sýningaropnun
25/02/2023 @ 14:00 - 15:00
Opnun sýningarinnar ,,Enginn karlaklúbbur“ eftir Sísí Ingólfsdóttur í Hannesarholti laugardaginn 25.febrúar kl.14.
Sísí Ingólfsdóttir er fædd árið 1986 og býr og starfar í Reykjavík. Sísi hefur verið upptekin af kynjahlutverkum og birtingarmyndum þeirra. Sjálf er hún ekki nema fimm barna móðir með blússandi adhd og kann ekki muninn á hægri og vinstri. Sísí lauk BA gráðu í Listfræði frá Háskóla íslands og MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Hún er grjótharður femínisti og verkin hennar eru oftar en ekki sjálfsævisöguleg með tilvísun í listasöguna og samtímann. Þannig myndast einhverskonar samsláttur á opinberu- og einkarými listamannsins. Sísí nálgast viðfangsefnið af móðurlegri mildi með húmorinn að vopni.
Á sýningunni, ,,Enginn karlaklúbbur“, veltir Sísí fyrir sér stöðu konunnar og frelsi hennar til þess að taka sér pláss. Með fígúratívum teikningum leikur hún sér að hlutgervingu konunnar við hlið steríótýpu hins hvíta miðaldra karlmans. Þó að „réttur“ kvenna (og annara kynjahópa) hafi vissulega skánað með áratugunum þá virðumst við enn vera háð römmum feðraveldisins, þess meingallaða kerfis sem hampar einum á kostnað annars. Þetta er ekki lengur eingöngu karlaklúbbur, nú eiga allir að fá að vera með, enda þarf alls ekki einn að falla til þess að annar geti risið.
Það getur verið mikilvægt að skoða fortíðina í ljósi samtímans og öfugt. Því fortíð og nútíð eru nefnilega ekki hreinar andstæður. Við þurfum samt ekki að láta úreltar hugmyndir fortíðar fylgja okkur. Engin ástæða til að fara aftur til þess sem áður var.
Þurfum við að láta græðgi og hræðslu stjórna hver fær að gera hvað? Hvernig við eigum að bera okkur að? Hverju við eigum að klæðast, hvernig við tölum, hvað við segjum, hvað við gerum.. Það er réttur hvers og eins að taka pláss.
Sísi veltir fyrir sér fáránleika þessa alls og tvinnar saman ólíkum pólum með myndheimi sínum. Hún vinnur með húmor og notast til þess einfaldar og hreinar línur með skýru litavali.
Allir græða á valdeflingu konunnar, líka miðaldra gaurinn.
Sýningin er opin á opnunartíma Hannesarholts, frá 11.30-16 alla daga nema sunnudaga og mánudaga.