ERLINGUR PÁLL INGVARSSON – GULA SÓLIN MAMMA
01/11/2020 - 19/11/2020
Þessi sýning er hugmyndalega tvískipt milli tveggja rýma í Hannesarholti en heildrænt skyld hvað efnisnotkun varðar. Sameiginlegur uppruni verkanna eru skissur sem hættu við að verða drög að einhverju og vildu standa sem fullbúin sjálfstæð verk. Myndirnar eru gerðar með ýmsum tegundum lita og efna en öll eru þær á pappírsgrunni.
1 Hringurinn, hið fullkomnasta form, hefur fylgt mannkyninu frá upphafi og er einskonar vöggugjöf til allra og alls ekki eingöngu listafólks. Ég er þá að vísa til þess að algengast er að það fyrsta sem hvert mannsbarn sér eftir fæðingu eru augasteinar. Hringformið er allt um lykjandi frá hinu stærsta sem við sjáum í himingeimnum til hinna smæstu öreinda. Hringurinn er virkur í vísindum og tækni. Hringurinn á sér endalausar birtingarmyndir í hugmyndaheimi mannkyns og hefur táknræna merkingu í heimspeki, trúarbrögðum, dulspeki (mysticism), goðsögnum (mythology), öllum listum og þannig mætti lengi telja.
Hér á sýningunni birtist hann hverjum og einum til eigin upplifunar og túlkunar.
2 Línan, sem getur verið tákn kyrrðar og stöðugleika, getur einnig myndað og búið til öll form, bæði geometrísk og lífræn. Línan, bæði hugsuð og teiknuð, er til dæmis einhver upprunalegasta leið okkar til þess að skýra fyrir okkur heimsmyndina og skrásetja, teikna upp og skipuleggja umhverfi okkar.
Hér á sýningunni birtast línur hverjum og einum til eigin upplifunar og túlkunar.
Erlingur Páll Ingvarsson (1952) er starfandi listamaður í Reykjavík. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1974-1978. Eftir það fór hann í framhaldsnám til Hollands í De Vrije Academie Den Haag með búsetu í Amsterdam og síðan til Þýskalands í Den Stadtliche Kunstacademie, Düsseldorf. Erlingur Páll hefur að baki 8 einkasýningar og nokkrar samsýningar. Listformið hefur spannað vítt svið: meðal annars skúlptúr, innsetningar, gjörninga, ljósmyndir og texta, en hann hefur nú um langt skeið notað málverk sem sinn helsta miðil. Sýningin er tileinkuð hljómsveitinni Gula sólin mamma.