FEGURÐ OG FÖGNUÐUR / SERENITY AND CELEBRATION – VIGNIR JÓHANNSSON
14/03/2020 - 26/05/2020
Vignir Jóhannsson listmálari opnar sýningu sína Fegurð og fögnuður / beauty and serenity í veitingastofum Hannesarholts laugardaginn 14.mars kl.15. Á sýningunni eru landslagsmálverk og fíguratíf, „sjáðu mig“ verk, sem Vignir hefur unnið að undanförnu í Danmörku, þar sem hann býr og starfar.
Vignir hefur starfað að myndlist og sýnt verk sín allt frá árinu 1978, bæði á Íslandi og víða erlendis. Hann hefur yfir ferilinn unnið grafíkverk, skúlptúra, leikmyndir og málverk. Sýningin er sölusýning og stendur fram að páskum, að minnsta kosti.
Fegurð og fögnuður
Það getur gerst við listsköpun að fegurð mæti fordómum ef listamaðurinn heldur henni frá verki sínu. Í staðinn fyrir fegurðina býr hann til listaverk sem hverfist til dæmis um andstæða krafta sem takast á um tilfinningar og veita verkinu afl og styrk. Allt annað gerist ef fegurðin er sett í framsætið. Listamaðurinn þarf að finna þá þörf hjá sér að einfalda viðfangsefnið og koma fegurðinni, eins og hann sér hana, fyrir í túlkun sinni í verkinu. Oft þarf að treysta á skynjun fegurðarinnar til að geta túlkað hana einfaldlega og án tilgerðar. Þetta er ekki alltaf auðvelt þar sem fegurðin er svo margbrotin. Reynsla listamannsins ræður vali hans á myndefni, litum og formum. Þessi verk eru mín túlkun á fegurð og fögnuði sem lífið hefur fært mér gegnum tíðina.
Fegurðin
Náttúran er meira undraverk en listin getur nokkru sinni náð að fullkomna. Í ljósi og litbrigðum á mótum lands og sjávar birtist fegurð sem fangar hug áhorfandans. Myndefnið er ekki nýtt í sögulegu samhengi en myndirnar freista ferskrar nálgunar að fegurðinni sem er túlkuð hér á látlausan hátt gegnum þekkta fjallasýn og sjávarsýn og mjúk litabrigði sem ögra ekki tilfinningum. Fegurðarinnar má njóta án fyrirhafnar og í látlausu jafnvægi.
Fögnuðurinn
Nútíminn leyfir okkur fyrir sitt leyti að halda upp á eigin árangur, bæði í leik og starfi. Þegar við náum settu marki – komumst yfir marklínuna í maraþonhlaupi, skorum mark eða náum upp á fjallstindinn – teygjum við hendurnar upp til himins í líkamlegri tjáningu á fögnuði okkar yfir eigin árangri. Sjáðu mig! Nú mega aðrir taka eftir. Þetta er hluti af fögnuðinum yfir fegurð lífsins. Þetta myndefni er mér hugstætt og táknrænt fyrir atvik sem flestir geta lent í að upplifa. Sem barn úti í náttúrinni setti maður sér oft það markmið að klífa stóran stein sem varð á vegi manns. Þegar það tókst að ná settu marki vildi maður deila með öðrum unnum sigri á steininum og gleði sigurvegarans. Unnum sigrum í eigin lífi getum við leyft okkur að fagna án hiks og svo aðrir sjái. Það vekur góðar tilfinningar, uppörvun og innri sátt.
Sjá nánar á Atelier Vignir á fésbók.
Hannesarholt er lokað tímabundið vegna heimsfaraldursins, en það má hafa samband og sjá sýningu Vignis eftir samkomulagi. Hér getur að líta nokkur myndbönd frá sýningunni.