Hleð Viðburðir

Séra Ólafur Jónsson á Söndum í Dýrafirði (um 1560-1627) var eitt mesta skáld sinnar tíðar og kvæðabók hans er varðveitt í fjölmörgum uppskriftum frá 17. og 18. öld. Við tæplega 50 kvæði hans eru einnig varðveitt lög sem lítið hafa verið rannsökuð fram til þessa. Í erindinu mun Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur rekja sögu nokkurra laga úr kvæðabókinni auk þess sem hann fjallar um tengsl tónlistar og texta í ólíkum uppskriftum kvæðabókarinnar.

Árni Heimir Ingólfsson hefur um árabil rannsakað íslenska tónlistarsögu fyrr og nú. Hann hefur ritað fjölda greina í íslensk og erlend tímarit, til dæmis Andvara, Griplu, Skírni og Sögu. Bók hans, Jón Leifs – Líf í tónum, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2009 í flokki fræðirita. Með Kammerkórnum Carmina hefur hann gefið út tvo hljómdiska með tónlist úr íslenskum handritum sem báðir unnu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem diskur ársins í sígildri tónlist. Árni Heimir hefur gegnt stöðum dósents við Listaháskóla Íslands og tónlistarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands en starfar nú sjálfstætt að fræðistörfum.

Allir velkomnir.

Upplýsingar

Dagsetn:
05/03/2014
Tími:
20:00 - 22:00
Verð:
Free

Staðsetning

Hljóðberg