

Ferð á fjallið – Opnun málverkasýningar Kristínar Pálmadóttur
5. apríl @ 14:00 - 16:00
FERÐ Á FJALLIÐ
Kristín Pálmadóttir opnar málverkasýningu sína, FERÐ Á FJALLIÐ, laugardaginn 5.apríl kl.14-16.
Flest verka á sýningu Kristínar eru tengd þeirri hugsun að stefna á toppinn, óviss hvort því takmarki verði náð, en upp er ferðinni heitið. Þó að ekki verði endilega komist á hærstu tinda er ferðin full af margbreytileika náttúrunnar, landinu við fætur okkar.
Þegar Kristín útskrifaðist frá Grafíkdeild MHÍ höfðaði það mest til hennar að vinna í ætingu. Þar fann hún samsvörun í þeirri tækni og yfirborði landsins. Um árið 2000 lærði hún nýja tækni þar sem hún gat tengt grafík við ljósmyndun sem hún hafði mikinn áhuga á. Málverkið hefur um 20 ár verið aukinn hluti af listsköpun Kristínar. Henni finnst áhugavert að vinna samhliða í þessa miðla.
Með hennar eigin orðum: ,,Þetta er fjórða einkasýningin sem ég sýni samhliða málverk og grafík. Reyndar finnst mér ég sjá aukin áhrif hvors miðils á hinn.“
Sýningin er sölusýning og stendur til 30.apríl. Hún er opin á opnunartímum Hannesarholts, alla daga nema sunnudaga og mánudaga, kl.11.30-16.