Hleð Viðburðir

Anna Jónsdóttir sópransöngkona og Sophie Soonjans flytja hádegistónleika í Hannesarholti sunnudaginn 10.mars kl.12.15 þar sem athyglin beinist að ferðalaginu frá myrkri til ljóss. Vorið nálgast og náttúran og dýrin vakna af vetrardvala og mennirnir fyllast von. Ný hringrás byrjar og allt er gott. Sólin skín og lífið vaknar.

Hve unaðslegt er að finna hlýja strauma leika um sig. Hvað er þá betra en að bresta í söng og slá á hörpustrengi. Tónlistin og ljóðin fylgja okkur á milli heima, hins dökka til hins ljósa, eða frá dauða til lífs. Frá íslenska þjóðlaginu “Grafskrift” og “dauðaaríu” Dídóar eftir Purcell, til glettins ástarbrums í “If music is the food of love” eftir sama höfund og vonarneista enska þjóðlagsins “Sumer Is Icumen In” og allt þar á milli.

Anna og Sophie eiga að baki áratuga samstarf, þær hafa komið fram á fjölmörgum tónleikum með fjölbreyttar efnisskrár.

Þær hafa einnig unnið með öðrum listamönnum við ýmis tækifæri.

Sophie og Anna hafa frumflutt íslenska og erlenda tónlist og þeim finnst mjög mikilvægt að eiga góða stundir með áheyrendum og tónlistinni.

Anna Jónsdóttir er sópransöngkona og raddlistamaður. Hún lærði óperusöng í Nýja Tónlistarskólanum hjá Alinu Dubik, auk þess sem hún dvaldi eina önn í Tónlistarháskólanum í Búkarest í Rúmeníu, þar sem aðalkennari hennar var Maria Slatinaru.

Anna lauk einsöngvaraprófi árið 2005 og hefur síðan verið sjálfstætt starfandi óperusöngkona og staðið sjálf að eigin verkefnum, bæði hvað varðar tónlistarval, skipulagningu æfinga og annað sem lýtur að framkvæmd og kynningu. Samhliða tónlistarflutningi, sinnir hún einka-kennslu í söng.

2006 hélt hún debut-tónleika í Hafnarborg og hefur haldið fjölda einsöngstónleika síðan. Árið 2008 gaf Anna út hljómdiskinn Móðurást, en á honum er að finna íslensk sönglög, sem fjalla á einhvern hátt um móðurkærleik. 2014 gaf Anna út hljómdiskinn VAR, sem inniheldur íslensk þjóðlög, sungin án meðleiks og hljóðrituð í lýsistanki á Djúpavík og í Akranesvita. Í kjölfar útgáfu hans, ferðaðist Anna um Ísland í tónleikaröðinni „Uppi og niðri og þar í miðju“ þar sem hún söng þjóðlögin á 17 sérstökum stöðum. Anna stóð fyrir tónleikaröðinni Konsert með kaffinu í Hannesarholti.

Undanfarin ár hefur tónleikahald og þátttaka í verkefnum erlendis verið vaxandi hluti af starfi hennar. Sumarið 2010 tók hún þátt í alþjóðlegu tónlistarsamstarfi á vegum Music Art Omi International í Ghent í New York fylki, þar sem hún dvaldi sem gistilistamaður. Sumarið 2012 var henni boðið að taka þátt í tónlistarhátíðinni SonicExchange í Kassel í Þýskalandi. Afrakstur þessa, var svo verkefnið „Máninn líður“ í samstarfi við tvær þýskar tónlistarkonur þar sem þær flytja íslenska tónlist á tilraunakenndann hátt. Anna hefur síðast liðin ár leitað nýrra leiða til tónlistariðkunar og má þar nefna spuna, og að halda tónleika á nýstárlegum stöðum og ekki síst að finna leiðir til að vera sjálfbær söngkona. Í frístundum finnst Önnu gaman að taka ljósmyndir, lesa ljóð og vera úti í náttúrunni. Meðfram söngstarfi sínu, stundar hún nú meistaranám í tónlistarkennslu í Listaháskóla Íslands og kennslu við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.

Sophie Schoonjans fæddist í Belgíu og lauk prófi frá Conservatoire Royal de Musique í Brussel 1984 í hörpuleik og 1985 i kammertónlist. 1982-1992 spilaði Sophie á hörpu með kammerhljómsveitunum: “Trio Pastoral”, “Duo Gao”, “Ensemble Consonnance”, “Duo Noack” og í sinfóníuhljómsveitunum: “Nouvel Orchestre Symphonique de la Radio-Télévision Belge”, “Orchestre du Festival de Bruxelles”, “Hong Kong Philharmonic Orchestra” og “Nieuw Vlaams Orkest”. Hún spilaði einnig með með : “Jeunesses Musicales”, “Live Music Now” og “Alex de Vries” frá 1984-1992.

Frá 1993 hef hún tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi og hefur m.a. spilað í Íslenzku Óperunni, með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, með Sinfóníuhljómsveit Íslands og á Sumartónleikum Norðurlands. Sophie hefur einnig spilað sem meðleikari á nokkrum geisladiskum. Sophie er annar helmingur Duo Mirabilis.

Hún starfar nú sem hörpukennari hjá Tónlistarskóla Sigursveins og Tónskólanum Do re mí, jafnframt því að vera sjálfstætt starfandi hörpuleikari.

Upplýsingar

Dagsetn:
10/03/2019
Tími:
12:15 - 13:00
Viðburður Category:

Staðsetning

Grundarstígur 10
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
Phone
5111904