Heimspekispjall – Beita íslenskir fjölmiðlar gagnrýninni hugsun?
18/11/2013 @ 20:00 - 22:00
| frjáls framlögMánudaginn 18. nóvember kl. 20.00 flytur Róbert Haraldsson, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands fyrirlestur í Hannesarholti um íslenska fréttamennsku út frá viðmiðum um gagnrýna hugsun.
Fyrirlesturinn er sá fjórði í röð fyrirlestra í umsjá Páls Skúlasonar og Henry Alexanders Henryssonar,. Hann hefur hlotið yfirskriftina „Heimspekispjall“. Róbert mun fara yfir þrenns konar tilhneigingar í íslenskri fréttamennsku sem hann telur að geti hver um sig grafið undan vandaðri og hlutlægri blaðamennsku og ógnað sjálfstæði fjölmiðla. Hann heldur því fram að fái þessar tilhneigingar að vaxa óhindraðar sé úti um gagnrýna fréttamennsku á Íslandi.
Í fyrsta lagi verður spurt hvort mörk frétta og auglýsinga hafa smám saman verið að mást út á undanförnum áratugum hér á landi. Í öðru lagi verður skoðað það einkenni á íslenskri blaðamennsku sem nefna mætti „hann sagði, hún sagði“ fréttamennska, en þar eru viðhorf ólíkra viðmælenda leidd fram án þess að tilraun sé gerð til að meta sanngildi eða trúverðugleika þeirra. Í þriðja lagi verður skoðað hvernig íslenskir fréttamenn setja sig í auknum mæli í spor nokkurs konar þerapista sem hlusta með ógagnrýnum hætti á sögur þolenda af hvers kyns óréttlæti sem þeir telja sig hafa orðið fyrir.
Róbert Haraldsson er heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands. Hann lauk B.A.-gráðu í heimspeki og sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1985. Róbert nam heimspeki við University of Pittsburgh og lauk þaðan M.A.-gráðu árið 1989 og Ph.D.-gráðu árið 1997. Hann hefur verið forstöðumaður Heimspekistofnunar Háskóla Íslands frá 2003 og ritstjóri Sats, samnorræns tímarits um heimspeki, frá 2001. Róbert var ritstjóri Skírnis árin 1995-1999 (ásamt Jóni Karli Helgasyni) og hefur flutt fjölda erinda m.a. um starfsemi fjölmiðla.
Markmið Hannesarholts er að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru.