Hleð Viðburðir

Your Content Goes Here

Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, sópransöngkona og Laufey Sigrún Haraldsdóttir, píanóleikari hafa unnið saman síðastliðin þrjú ár og komið reglulega fram saman á tónleikum í tónleikaröðinni Perlur íslenskra sönglaga í Hörpu. Á þessum tónleikum munu þær flytja vel valin sönglög bæði á þýsku og íslensku. Fluttur verður undurfagur ljóðaflokkur eftir Clöru Schumann en í ár eru einmitt liðin 200 ár frá fæðingu hennar. Einnig verða flutt nokkur lög úr Jónasarlögum eftir Atla Heimi Sveinsson, sönglög eftir Jórunni Viðar o.fl.

Heiðdís Hanna Sigurðardóttir hóf söngnám hjá Guðrúnu Jóhönnu Jónsdóttur í Tónlistarskóla Garðabæjar. Að framhaldsprófi loknu hélt hún til Þýskalands og stundaði söngnám á háskólastigi við Tónlistarháskólann í Freiburg hjá Prof. Angela Nick í þrjú ár. Hún skipti svo yfir í Listaháskóla Íslands og lauk síðasta árinu í bakkalárnáminu hjá Þóru Einarsdóttur, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Kristni Sigmundssyni. Í framhaldi af því stundaði hún nám á meistarastigi við sama skóla í frumkvöðlastarfi, sköpun og miðlun eða NAIP(New Audiences and Innovative Practice) með söng sem aðalfag.

Heiðdís Hanna sigraði í keppninni Ungir einleikarar og kom fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikunum Ungir einleikarar í janúar 2016. Sama ár þreytti hún frumraun sína á óperusviðinu í hlutverki Zerlinu í uppfærslu Íslensku óperunnar á Don Giovanni eftir Mozart. Á árunum 2015-2017 kom hún reglulega fram á tónleikum í tónleikaröðinni Perlur íslenskra sönglaga í Hörpu. Heiðdís Hanna hefur einnig starfað með rafpönkhljómsveitinni HATARI og kom fram með þeim á Hlustendaverðlaununum 2018. Síðasta sumar söng hún í fysta skipti hlutverk 1.Dömu í uppfærslu Escales Lyriques á Töfraflautunni eftir Mozart á frönsku eyjunni Ile d‘Yeu.

Heiðdís Hanna útskrifaðist vorið 2018 úr NAIP meistaranámi frá Listaháskóla Íslands og starfar nú sem sjálfstætt starfandi söngkona. http://www.heiddishanna.com/

Laufey Sigrún Haraldsdóttir stundaði píanónám í Tónlistarskólanum á Akureyri og síðar við Listaháskóla Íslands hjá Halldóri Haraldssyni og Peter Máté og lauk þaðan B.Mus gráðu. Eftir það hóf hún nám við Tónlistarháskólann í Árósum í Danmörku og útskrifaðist þaðan með M.Mus gráðu. Laufey sótti meðal annars fjölda námskeiða í klassískum píanóleik á námsferlinum en auk þess í tónsmíðum og söng. Laufey hefur komið fram sem píanóleikari við flutning klassískrar tónlistar síðastliðin ár með ýmsum tónlistarhópum og á árunum 2015-2017 kom hún reglulega fram á tónleikum í tónleikaröðinni Perlur íslenskra sönglaga í Hörpu. Þá hefur hún tekið þátt í tón- og hljóðspunaverkefnum, flutt tónlist fyrir Jóga og hugleiðslu, bæði hérlendis og erlendis, í samstarfi við aðra. Hún hefur útsett og flutt eigin og tónlist og staðið að margvíslegum tónlistarverkefnum.

Upplýsingar

Dagsetn:
02/06/2019
Tími:
12:00 - 13:00
Viðburður Category:

Staðsetning

Grundarstígur 10
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
Phone
5111904