Hleð Viðburðir

Heilsuspjall – Heilahreysti, hvernig stuðlum við að heilbrigðu hugarstarfi frameftir langri ævi?

Mannsheilinn er undursamleg smíð. Það er lygasögu líkast að í hverju heilabúi séu um 85 milljarðar taugafruma sem gera okkur kleift að skynja, finna til, hugsa, skapa, elska og njóta ævina á enda.  Reyndar ekki hjá öllum, því miður, stundum raskast taugastarfsemin þegar aldurinn færist yfir, minninu hrakar og Alzheimerssjúkdómurinn tekur völdin; vágestur sem við viljum gjarnan forðast en er það hægt? Í dag er ýmislegt vitað um þætti sem stuðla að tilurð og þróun Alzheimersjúkdómsins og hafa vísindamenn hvatt til þess að gera forvarnir gegn heilabilun að forgangsverkefni í vestrænum samfélögum. Til mikils er að vinna því að öllu óbreyttu er líklegt að fjöldi Alzheimerssjúklinga muni tvöfaldast á næstu 40 árum.

Í tilefni af alþjóðlegu heilavikunni verður á dagskrá í Hannesarholti Heilsuspjallsumræða um „Heilahreysti“ fimmtudaginn 16. mars kl 20.

María K. Jónsdóttir sérfræðingur í klínískri taugasálfræði og dósent við Háskólann í Reykjavík og Brynhildur Jónsdóttir sálfræðingur á minnismóttöku Landspítalans á Landakoti munu ræða um hvernig við getum best stuðlað að eigin heilahreysti ævina á enda og þannig minnkað líkurnar á heilabilun. Að loknum erindunum munu María og Brynhildur ásamt Jóni G. Snædal yfirlækni á heilabilunareiningu Landakots spjalla við áheyrendur.

Fiskisúpa á 2450 fyrir þá sem vilja í veitingastofunum frá kl. 18:30. Borðapantanir í s.511 1904 eða á hannesarholt@hannesarholt.is

 

Upplýsingar

Dagsetn:
16/03/2017
Tími:
20:00
Verð:
kr.1500
Viðburður Category:
Vefsíða:
https://midi.is/event/1/9994/Heilsuspjall-Heilahreysti

Skipuleggjandi

Hannesarholt

Staðsetning

Hljóðberg