Heilsuspjall – sársauki
14/03/2016 @ 20:00
| kr.1000Heilsuspjall í Hannesarholti:
Ræðum um sársauka – eða er það fyrirfram dauðadæmt?
Það þykir ekki beint skemmtilegt að ræða um verki og sársauka. Verkjasjúklingnum finnst umræðuefnið niðurdrepandi og fyrir nærstadda kveikir það gjarnan í óþægilegri tilfinningu úrræðaleysis. Á íslenskum samfélagsmiðlum er vissulega fjallað um margt áhugavert en næstum aldrei er rætt um verki. Þessi þögn er þó ekki ný af nálinni því William Shakespeare og önnur höfuðskáld bókmenntanna, sem gátu á aðdáunarverðan hátt lýst tilfinningum gleði, hamingju, reiði, haturs og ótta, skautuðu iðulega framhjá þessari algengu upplifun, „verkur“.
Í heilsuspjalli sínu í Hannesarholti mun gigtlæknirinn Arnór Víkingsson fá í heimsókn til sín verkjasálfræðinginn Eggert Birgisson og saman munu þeir spjalla við áheyrendur um verki og sársauka í víðu samhengi.
Veitingastofur eru opnar frá kl. 18.30 og gestum gefst kostur á að gæða sér á léttum kvöldverði í formi menningarplatta á undan heilsuspjallinu. Bóka þarf borð í síðasta lagi kl. 16.00 daginn áður. Einnig verður á boðstólum súpa með heimabökuðu brauði.