Heimspekispjall – Mannréttindi
20/04/2015 @ 20:00 - 21:30
Henry Alexander Henrysson sérfræðingur hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands sér um heimspekispjall þar sem mannréttindi verða í brennidepli i Hljóðbergi. Veitingastaðurinn á 1.hæðinni verður opinn frá kl.18.00-20.00, súpa og heimabakað brauð í boði, borðapantanir í síma 511-1904.
Í þetta sinn er heimspekispjallið haldið í samstarfi við Íslandsdeild Amnesty International og er yfirskriftin „mannréttindi“. Ætlunin er að skoða uppruna og eðli mannréttinda ásamt því að draga fram hlutverk heimspekinnar í umræðu um þau. Frummælendur verða þau Bryndís Bjarnadóttir herferðastjóri Íslandsdeildar Amnesty International og Ólafur Páll Jónsson heimspekingur og dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Erindi Bryndísar nefnist „Þróun mannréttinda og mannréttindakerfisins“. Í erindinu mun hún tæpa á hugmyndasögu mannréttinda, fjallað um kynslóðir mannréttinda, mannréttindakerfið og mannréttindaverndina og færa rök fyrir því að krafan um mannréttindi sé umfram allt siðferðileg og byggi á siðferðilegum gildum.
Í erindi sínu sem nefnist „Mannréttindi: Réttur og sanngjarnt gildi“ mun Ólafur Páll skoða hvað felst í því að grunnstofnanir samfélagsins séu skipulagðar með þeim hætti að allt fólk hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og fái auk þess stuðning til þess að nota þessa hæfileika til að lifa lífi sem það hefur ástæðu til að meta að verðleikum. Mun hann sérstaklega skoða menntun í þessu samhengi og hvernig hægt er að sjá til þess að menntunin sé virkilega þau verðmæti sem henni er ætlað að vera.