Innlit – Hildur Björnsdóttir
20/02/2016 @ 15:00
Opnun sýningar á verkum Hildar Björnsdóttur í veitingastofum Hannesarholts.
Sýningin ber titilinn Innlit og vísar til heimsóknar Hildar til Íslands og í Hannesarholt þar sem hún lítur inn í hugarheim fólks, staldrar við eitt augnablik og leitast við að miðla þeirri stemningu sem hún upplifir. Hildur sækir meðal annars innblástur sinn í íslenska náttúru og augnablik á ferðalögum sínum víðs vegar um heim sem verða að einhvers konar litlum sögum í verkum hennar.
Við vinnslu verkanna notar hún ýmsa tækni svo sem málverk á striga eða tréplötur, samsettar ljósmyndir og teikningar sem eru prentaðar beint á álplötur. Undanfarin ár hefur hún einbeitt sér að því að nota blandaða tækni í grafík.
Á sýningunni í Hannesarholti verða grafísk verk sem hægt er að skipta í þrjá flokka:
”Litógrafísk” verk (flatþrykk á stein), ”photopolymerþrykk” (ljósmyndaræting) og ”monotypi”(einþrykk). Flest verkin eiga uppruna sinn í skissum af augnablikum, þar sem Hildur einbeitir sér að því að horfa á viðfangsefni sitt eða fyrirmynd og teikna án þess að líta á pappírinn með svokallaðri blindteikningu.
Hildur Björnsdóttir býr og starfar sem myndlistamaður og myndlistakennari í Noregi.
Hún hefur stundað nám í myndlist og grafík á Íslandi, í Noregi og í Svíþjóð.