Leikið og lofað í garðinum heima – Kristín Þorkelsdóttir myndlistarkona
12/11/2016 @ 15:00 - 17:00
Kristín Þorkelsdóttir myndlistarkona sýnir akvarellur málaðar frá 2012 til 2016. Sýningin verður á veggjum Hannesarholts frá 12. nóv. til 10. des. 2016. Myndirnar verða til sölu.
Kristín á að baki glæsilegan feril sem grafískur hönnuður og myndlistarmaður. Hennar aðalviðfangsefni hafa verið landslagsmyndir sem hún hefur sýnt víða, þar á meðal í Listasafni Kópavogs, sýningarnar Fjalladans 1995 og Tveir heimar 2006. og á þremur stórum sýningum í Hafnarborg: Verund 1992, Ljósdægur 1999 og Flæði 2002.
Árið 2015 setti hún upp sýninguna „ÁSÝND samferðamanna á lífsfleyinu“ í Listasal Mosfellsbæjar. Uppistaða þeirrar sýningar voru portrettmyndir frá æviferlinum en alla ævi hefur Kristín haft ástríðu fyrir andlitsmyndum.
Kristín hefur í gegnum árin fengið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, nú síðast þegar hún var valin heiðurslistamaður Kópavogsbæjar 2016 fyrir ævistarf sitt.
Akvarellurnar sem nú verða sýndar eru málaðar í bataferli eftir blóðtappa og lömun sem Kristín varð fyrir í júní 2012. Í bataferlinu málaði hún úti í garði flesta daga þegar veður leyfði. Því eins og Kristín segir sjálf frá:
„Í fimm sumur hef ég þannig fangað liti og form og tel að þann bata og þá dirfsku sem ég hef öðlast í málunarferlinu megi að verulegu leyti rekja til litlu akvarellanna úr garðinum heima. Þessar akvarellur mínar frá síðustu sumrum eru ekki heilagar sem akvarellur. Leikur, reddingar og hugdettur hafa ráðið ferðinni við hvers kyns aðstæður í ferlinu. Viðfangsefnin hafa verið litbrigði vors- og sumarkomu.
Akvarellan er heillandi myndmiðill sem ég hef verið ástfangin af síðan 1984 en þá hófum við hjónin myndleiðangra okkar um Ísland. Ég nýt mín við að bera litfylltan pensil að rökum pappír og fylgjast með akvarellu verða til. Liturinn smýgur í pappírinn, blandast fyrri pensilskrift og vekur lífsgleðina að nýju.“
Við opnun sýningarinnar mun Gunnar Kvaran sellóleikari leika tónlist eftir Bach.