This event has passed.
Ljóða-og tokkötukvöld Steinunnar og Þorsteins
05/04/2017 @ 20:00
| kr.3000Steinunn Sigurðardóttir les úr nýju ljóðabókinni sinni AF LJÓÐI ERTU KOMIN.
Tinna Þorsteinsdóttir flytur TVÆR TOKKÖTUR FYRIR PÍANÓ eftir Þorstein Hauksson, en tokköturnar eru samdar sérstaklega fyrir hana.
Arnaldur Arnarson leikur TOKKÖTU FYRIR GÍTAR eftir Þorstein, en bæði hann og Tinna
hafa flutt tokkötur Þorsteins víða á síðustu árum.
Þá les Steinunn þýðingar sínar á ljóðum eftir Derek Walcott og Adam Zagajewski.
Ferill Steinunnar Sigurðardóttur og Þorsteins Haukssonar hefur verið samofin
síðustu þrjá áratugi. Á þeim tíma hafa tónverk Þorsteins verið samin í forvitin eyrun á
sambýliskonunni – um leið og Þorsteinn hefur orðið fyrsti og helsti yfirlesari að
ritverkum Steinunnar. Enda munu þau fjalla um verk hvors annars á kvöldstundinni í Hannesarholti.
Steinunn og Þorsteinn eiga bæði um hálfrar aldar langan feril í sínum greinum, en fyrsta ljóðabók Steinunnar kom út árið 1969. Þorsteinn lauk einleikaraprófi á píanó og við tók langur námsferill í tónsmíðum, meðal annars í Stanford háskóla í Bandaríkjunum og í IRCAM tölvutónlistarmiðstöðinni í Pompidou menningarmiðstöðinni í París. Þá hefur hann verið gestatónskáld meðal annars í Kunitachi College of Music íTókíó, CCMR í Aþenu, EMS í Stokkhólmi og IRCAM, meðfram beiðnum um að semja tónverk, sem hafa verið flutt víða um heim.
Tónverk Þorsteins eru af mjög ólíkum toga, allt frá einleiksverkum, kórverkum, hljómsveitarverkum til hreinna tölvutónverka. Þau einkennast af mikilli kunnáttu, frumleika og sterkum litum, þar sem tónskáldið hikar ekki við að blanda upp á nýtt. Þorsteinn hefur þrívegis verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir hljómsveitarverkið Ad Astra, Bells of Earth II fyrir hljómsveit og tölvuhljóð, og cho fyrir flautu og tölvuhljóð, samið fyrir Kolbein Bjarnason. Nýjasta tónverk Þorsteins er Sinfónía tvö.
Steinunn hóf ferilinn sem ljóðskáld, en fyrsta skáldsaga hennar Tímaþjófurinn, sló í gegn heima og heiman og leikur enn lausum hala, nú síðast í uppfærslu Þjóðleikhússins, með Nínu Dögg Filippusdóttur í hlutverki Öldu. Steinunn fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Hjartastað, sem var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðlandaráðs, líkt og Tímaþjófurinn. Steinunn heldur áfram að senda frá sér ljóðabækur og skáldsögur jöfnum höndum. Viðfangsefni hennar eru einkum ástin, tíminn og dauðinn. Helstu skáldsagnapersónur Steinunnar eru stórbrotnar og óvenjulegar konur líkt og Alda í Tímaþjófnum. Þá hefur Steinunn skrifað bækur um tvær íslenskar kvenhetjur, Vigdísi Finnbogadóttur forseta og Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur fjalldalabónda. Síðari bókin kom út fyrir jól 2016 og hlaut Bóksalaverðlaunin og Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun íslenskra kvenna. Einnig kom út eftir Steinunni fyrir síðustu jól ljóðabókin Af ljóði ertu komin, sem tilnefnd var til Menningarverðlauna DV.
Steinunn Sigurðardóttir og Þorsteinn Hauksson hafa lengst af búið í París og Berlín. Þau eru nú búsett í Strassborg, en reyna jafnframt að verja sem mestum tíma á Íslandi. Nánari upplýsingar á heimasíðum listamannanna: hauksson.com og
steinunn.net
steinunn.net
Kjúklingasúpa með heimabökuðu brauði á 2450 frá kl.18.30, borðapantanir í síma 511-1904 eða á hannesarholt@hannesarholt.is