Hleð Viðburðir

Með þér – útgáfutónleikar

Guðrún og Javier í Hannesarholti 11. mars 2023

Laugardaginn 11. mars fagna söngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og klassíski gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui útgáfu á nýjustu plötunni þeirra ,,Með þér – David del Puerto Vocal Works“ sem kom út hjá ABU Records á dögunum. Á tónleikunum í Hannesarholti flytja þau lög af plötunni ásamt efni sem þau eru að vinna í núna. Þar má nefna sönglög eftir Atla Heimi Sveinsson eins og Maríukvæði og Klementínudans og bandarísk þjóðlög innblásin af John Jacob Niles, s.s. Black is the Color og I Wonder as I Wander. Opnunarlagið á tónleikunum er hins vegar Blessuð sólin elskar allt sem gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui samdi við ljóð eftir Hannes Hafstein og vann með því til 3. verðlauna í Lagakeppni Hannesarholts og Stöðvar 2 haustið 2020.

Um listamennina:

Söngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og spænski klassíski gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui eru þekkt fyrir að skapa mikla nánd við áhorfendur, innlifun, frumlegt efnisval, heillandi framkomu, tilfinninganæma túlkun og áhugaverðar kynningar, sem færa hlustendur inn í heim hvers lags fyrir sig. Guðrún og Javier komu fyrst fram saman árið 2002 í Guildhall School of Music and Drama í London, þaðan sem þau luku bæði mastersgráðum í tónlist. Síðan þá hafa þau komið reglulega fram saman í fjölmörgum tónleikasölum og á tónlistarhátíðum víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum og Afríku. Þau hafa tekið upp fyrir útvarp og sjónvarp á Íslandi og erlendis og fjóra heila geisladiska: Mitt er þitt – íslensk og spænsk sönglög (12 tónar), English and Scottish Romantic Songs for voice and guitar (EMEC Discos), Secretos Quiero Descubrir og Með þér – David del Puerto Vocal Works (Abu Records). Upptökur þeirra má einnig heyra á diskunum Inspired by Harpa, Icelandic Folksongs and Other Favorites, Kom skapari (12 tónar) og Awake (Orpheus Classical). Hjónin Guðrún og Javier stofnuðu Sönghátíð í Hafnarborg árið 2017. Þau fluttu til Íslands frá Spáni árið 2020. www.duoatlantico.com

Um plötuna:

Með þér – David del Puerto Vocal Works

Út er komin platan Með þér – David del Puerto Vocal Works. Þar flytja mezzósópransöngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og spænski klassíski gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui verk sem spænska tónskáldið David del Puerto samdi öll sérstaklega fyrir þau. David er handhafi Þjóðarverðlauna Spánar í tónlist (Premio Nacional de la Música). Titillag plötunnar er við ljóð eftir Kristján Þórð Hranfsson en önnur lög eru við ljóð eftir David del Puerto, Paco Quirce og San Juan de la Cruz. Með þeim Guðrúnu og Javier leika einnig í nokkrum lögum fiðluleikarinn Elena Jáuregui, óbóleikarinn Inma Veses Gil og sellóleikarinn Beatriz Perona. Platan var valin sem Disco de oro (Gulldiskur) í nóvemberhefti tónlistartímaritsins Melómano á Spáni 2022. Í gagnrýni blaðsins segir: ,,Fágað tungumál Del Puerto, sérlega nautnalegt, nýtur fyrirtaks tjáningar tvíeykisins Guðrúnar Ólafsdóttur og Javier Jáuregui, sem eru reyndir flytjendur verka hans fyrir söng og klassískan gítar. Íslenska mezzósópransöngkonan fer með fallegri og seiðandi rödd inn í hið kyrrláta tímaleysi chiaroscuro, bliku tunglsljóssins og nána dulúð, sem eru gegnumgangandi í ,,Poema del ocaso y la noche“ (Alejando Santini Dupeyrón). ABU Records gefur plötuna út en Árni Möller sá um upptökur og hljóðvinnslu. Samstarf þeirra Guðrúnar, Javiers og David del Puerto nær aftur til ársins 2013 og er þessi plata því uppskera margra ára samvinnu þar sem tónskáldið hefur samið tónlist fyrir flytjendurna sem þau hafa flutt á ýmsum tónleikum á Spáni og víðar. David samdi einnig titilhlutverkið í óperunni Lilith, luna negra handa Guðrúnu og var óperan frumflutt á Spáni árið 2019 þar sem Javier lék í hljómsveitinni. Hægt er að hlusta á plötuna á Spotify og öðrum streymisveitum. Útgáfan var styrkt af Hljóðritasjóði.

Sjá: https://open.spotify.com/album/000uAiBjY6I5LQnPBHyytH?si=nXPcpnlYQzy7ZtmXyL2IJw&nd=1

Upplýsingar

Dagsetn:
11/03/2023
Tími:
16:00 - 17:00
Viðburður Category:

Staðsetning

Hannesarholt
Grundarstígur 10
Reykjavík ,
+ Google Map