Hleð Viðburðir

Margrét Jónsdóttir sýnir í Hannesarholti dagana 21.september – 11.október, verk úr myndröðinni IN MEMORIAM ásamt verkum úr myndröð sem spratt fram á tímum COVID. Þau verk eru unnin í Frakklandi og tengjast eldri verkum hennar, en hún slasaðist í Frakklandi og var strandaglópur í COVID. Öll verkin eru til sölu. Máluð mynd er miklu meira en bara máluð mynd, myndlistin snýst ekki bara um tækni, það verður líka að nema og skynja, sem kemur á undan því vitsmunalega til að geta notið listar.

Margrét hefur alltaf unnið út frá hinum ýmsu víddum í náttúrunni, að gera það ósýnilega sýnilegt og fylgja innsæi og tilfinningum. Náttúruöflin eru sterk og eyðandi og stjórna líðan mannanna og veruleika með öllum sínum kröftum og ofbeldi en sömu lögmál virðist gilda á öllum sviðum tilverunnar. Verk Margrétar eru einhverskonar fórn til lífsins, því bæði menntun hennar og starf undanfarna hálfa öld sem listamaður hefur snúist um allt annað og miklu stærra en sölu, markað, markaðssetningu eða vinsældir. Þetta hafa verið viðbrögð við skynjun á einhverju sem er svo sterkt að lífið er lagt við í tjáningu sem vart verður skilin en numin sterkt, eitthvað handan lífs og allt um kring. Allt sem maðurinn gerir hverfur og þannig er það einnig með þessa fórn listamannsins: maðurinn rotnar og verður að næringu fyrir næstu ögn, grotnar niður og hverfur í tómið.

Listmálarinn Margrét Jónsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1953 og starfar að list sinni í Frakklandi og Íslandi. Hún hefur unnið sem myndlistarmaður um hálfa öld en 48 ár eru frá fyrstu sýningu hennar í London. Hún nam við Myndlista og Handíðaskóla Íslands, diplóma í frjálsri myndlist/ grafík árið 1974. Masternám við Central Saint Martin’s College of Art í London árin 1974 til 1976. Myndlista og Handíðaskóla Íslands, diplóma í grafískri hönnun árið 1984. Diplóma frá Kennaraháskólanum árið 1997. Hún hefur haldið yfir 50 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Margrét var einn af stofnendum Gallery Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi. Hennar er getið í ritinu „Íslensk listasaga“, sem er fimm binda verk og spannar tímabilið frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Einn af stofnendum Hagsmunafélags Myndlistarmanna sem var undanfari Sambands Íslenskra Myndlistarmanna ásamt stofnun SÍM. Verk eftir hana eru í eigu helstu listasafna landsins. Hefur hlotið ferðastyrki og starfslaun listamanna. Félagi í FÍM, Íslensk Grafík, SÍM, Nýlistasafninu.

Margrét hlaut norræn vatnslitaverðlaun á þessu ári. The Winsor & Newton Prize. Verðlaun Norræna Vatnslitafélagsins/Col Art The Nordic Watercolor Association Prize 2023.

Upplýsingar

Dagsetn:
21/09/2023
Tími:
15:00 - 17:00
Viðburður Category:

Staðsetning

Hannesarholt
Grundarstígur 10
Reykjavík ,
+ Google Map