Hleð Viðburðir

Ráðstefna í Hannesarholti hinn 27. apríl 2019, kl. 10:00-15:15, um fyrirlestra Sigurðar Nordals Einlyndi og marglyndi í Bárubúð 1918-1919.

Ráðstefnan Öld einlyndis og marglyndis er haldin í þeirri trú að hugtök Sigurðar Nordals einlyndi og marglyndi, og flókið samspil þeirra, geri okkur kleift að hugsa upp á nýtt um áleitnustu deilumál í heimspekilegri sálfræði og siðfræði samtímans en einnig til að skilja hræringar í bókmenntum og menningarlífi Íslands á tuttugustu öld. Sjálfur lítur Nordal á fyrirlestra sína sem framlag til (heimspekilegrar) sálfræði og þess sem hann kallar „lífernislist“. Fyrirlestrarnir í Bárubúð voru ákaflega vel sóttir á sínum tíma en Sigurður hafði heyjað sér efni í þá á árum fyrri heimstyrjaldarinnar bæði í Þýskalandi og á Bretlandi. Einlynd og marglyndi er heimspekilegur fjársjóður sem á sér engan sinn líkan á Íslandi.

Á meðal þeirra spurninga sem glímt verður við á ráðstefnunni má nefna:

  • Hvers konar hugtök eru hugtökin einlyndi og marglyndi?
  • Hefur maðurinn eitt heilsteypt sjálf eða er hann ekkert annað en samansafn ólíkra sálarkrafta eða sjálfa?
  • Felst hamingjan í þroska einnar heilsteyptrar persónu og siðferðið í heilindum sjálfsins? Eða er mannleg farsæld eins margbreytileg og siðferðið jafn marglitt og sjálf mannsins eru mörg?
  • Á hvaða mælikvarða metum við árangur þeirrar heimspeki sem Nordal mótar í fyrirlestrum sínum?
  • Hvernig nýtast hugtökin einlyndi og marglyndi við mótun persónulegrar lífsstefnu?
  • Hvernig sér Nordal tengsl bókmennta og heimspeki, lista og siðspeki?
  • Hvaða ljósi varpa fyrirlestrar Nordals á tengsl hans við sálarrannsóknir á Íslandi?
  • Hver voru áhrif fyrirlestra Nordals á íslenska bókmenntasögu?

Dagskrá:

10:00-10:30 Salvör Nordal, umboðsmaður barna, „Að vera einlyndur eða marglyndur.“

10:30-11:00 Logi Gunnarsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Potsdam, „Einlyndi og marglyndi: heimspekileg lykilhugtök?“

11:00-11:15 Kaffihlé

11:15-11:45 Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, „Ríki andans og höll hugans: Mælikvarði Nordals á fyrirlestra sína um einlyndi og marglyndi.“

11:45- 12:15 Ágúst Hjörtur Ingþórsson, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs Rannís, „Að lifa með einlyndi og marglyndi.“

12:15-13:00 Hádegishlé

13:00-13:30 Jón Karl Helgason, prófessor í íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands, „Uppgjörið við natúralismann: Fyrirlestrar Nordals og íslensk bókmenntasaga.“

13:30-14:00 Benedikt Hjartarson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, „Af ónumdum útjöðrum sálarinnar: Sigurður Nordal og sálarrannsóknir á Íslandi við upphaf 20. aldar.“

14.00-14:15 Kaffihlé

14:15-14:45 Jón Á. Kalmansson, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, „Nordal andspænis undrinu.“

14:45-15:15 Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, „Menntahugsjón Nordals og áskoranir samtímans.“

Ráðstefnan er haldin með styrk frá Heimspekistofnun Háskóla Íslands.

Upplýsingar

Dagsetn:
27/04/2019
Tími:
10:00 - 15:30
Viðburður Category:

Staðsetning

Grundarstígur 10
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
Phone
5111904