SAMFÉLAGSGÆSKA í Hannesarholti með Dr. Ólafi Þór Ævarssyni
28/09/2023 @ 20:00 - 21:00
Kvöldstund með Dr. Ólafi Þór Ævarssyni geðlækni, sem ræðir um nýtt hugtak sem útleggst á íslensku sem Samfélagsgæska, Social Kindness á ensku. Hann segir meðal annars frá nýrri þekkingu á heilanum og samstarfi taugakerfis og hormóna, sem sýnir hve mikilvæg samvinna og gæska eru til að takast á við álag. September er mánuður geðræktar og hér eru á ferðinni góðar fréttir í geðrækt.
Auk þess að starfa sem geðlæknir er Ólafur stofnandi Streituskólans. Þessi fyrirlestur getur flokkast undir fræðslu til forvarna frá Streituskólanum. Ólafur er ósínkur á góð ráð og uppbyggjandi skilaboð til samborgaranna og skrifar meðal annars pistla á akureyri.net sem nefnast Fræðsla til forvarna. Í einum slíkum ræðir hann um samfélagsgæsku:
Þegar við verðum vitni að því að einhver gerir góðverk er tilfinningin sem við finnum sjálf góð. Okkur verður hlýtt um hjartarætur og fyllumst manngæsku og einnig löngun til að gera eins. Eða réttara sagt svipað. Rannsóknirnar sýna nefnilega að maður gerir ekki það sama og fyrirmyndin heldur fyllist meiri löngun til að gera vel, láta gott af sér leiða og finnur svo eigin leið til að gera það. Þetta er smitandi hegðun, meðvituð eða ómeðvituð. Vísindamenn hafa verið að rannsaka hegðun í stórum hópum í löngun til þess að skýra þetta fyrirbæri.
Streymt verður frá kvöldstundinni og aðgangseyrir er valfrjáls. Skráning og miðasala á tix.is