Hleð Viðburðir

Sara Oskarsson opnar málverkasýningu sína í Hannesarholti fimmtudaginn 18. janúar kl.15-17.

Á sýningunni sem nefnist ÍSTAKA eru verk eftir Söru unnin á striga og panel með olíu og vaxi. Verkin eru úr nýrri borgar-seríu innblásin af dýnamíkinni hjá Tjörninni í Reykjavík.

Titill sýningarinnar vísar til ístöku á tjörninni sem fór fram í Reykjavík á fyrri hluta síðustu aldar. Ísinn var notaður í íshúsin í Reykjavík og til að ísa fisk fyrir siglingar með glænýjan fisk.

Ístaka var erfiðisvinna í kulda og trekki. Ísinn var högginn þar sem að hann var tærastur og bestur og síðan sprengdur frá ísbrúninni með járnkörlum. Íshellunum var svo raðað á sleða sem hestar drógu að geymslum íshúsa.

Var þetta allt saman hið kalsamasta verk og erfitt enda vont að ná haldi á blautum ísnum. Jakarnir voru vegnir upp á skörina með ísstöngum og áfram á sleðana. Hestar siluðust í átt að litlu steinbryggjunni, eftir henni upp tjarnarbakkann og síðan á ákvörðunarstað. Þetta var oft hið tafsamasta ferðalag því ísstykkin vildu velta af sleðunum.

Íshúsið Herðubreið sem stendur við tjörnina hýsir nú Listasafn Íslands.

Sara sem er fædd Reykjavík og á ævilangar minningar þaðan gerir tjörnina og umhverfi að viðfangsefni sínu og líkir starfi og viðleitni málarans við ákveðna “ístöku”.

Að fanga augnablik, stemmningu, hugmyndir, birtu og sál – að skapa eitthvað úr nærumhverfi sínu við hin ýmsu skilyrði. Að fanga það sem er hvikult. Sýnd veiði en ekki gefin.

____

Sara Oskarsson fæddist árið 1981 í Reykjavík og ólst að hluta til upp í Skotlandi. Hún útskrifaðist með B.A. gráðu í listmálun frá Edinburgh College of Art í Skotlandi árið 2012 og hefur starfað sem listmálari í meira en tvo áratugi.

Sara hefur haldið fjölmargar einkasýningar og einnig tekið þátt í mörgum samsýningum.

Fjallað hefur verið um verkin hennar í Telegraph dagblaðinu í Bretlandi og á Arte.Tv í Frakklandi, Þýskalandi og Austur Evrópu.

Verkin hafa selst til listaverkasafnara um allan heim; meðal annars til Bretlands, Írlands, Frakklands, Danmörku, Indlands, Bandaríkjanna, Hollands og Ástralíu. Árið 2013 hlaut verk eftir Söru tilnefningu til Art Gemini Prize -verðlaunanna í Bretlandi.

Sara starfar sem listamaður í fullu starfi og er með vinnustofu á Hverfisgötu 14 í Reykjavík.

www.saraoskarsson.com

Upplýsingar

Dagsetn:
18. janúar
Tími:
15:00 - 17:00
Viðburður Category:

Staðsetning

Hannesarholt
Grundarstígur 10
Reykjavík ,
+ Google Map