SELLÓPERLUR BACHS MEÐ GEIRÞRÚÐI ÖNNU
24/01/2021 @ 12:15 - 13:15
Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir leikur þrjár einleikssvítur eftir Johann Sebastian Bach. Einleikssvítur Bachs eru perlur sellóbókmenntanna. Hver svíta hefur sína eigin tóntegund, brag, og sérstæðu. Fyrsta svítan sem hljómar hér er hin fræga G-dúr svíta nr. 1. Hún einkennist af svo til barnslegum einfaldleika, tærleika og sakleysi. Svíta nr. 2 í d-moll sem hljómar næst einkennist af sama tærleika en annars er blærinn annar. Önnur svítan er alvarleg, innhverf og íhugul að yfirbragði. Stokkið er svo fram í tímann til þess að ljúka tónleikunum en fagnaðarómur sjöttu svítunnar í D-dúr mun enda þess hádegisstund. Sjötta svítan er í alla staði andhverfa annarrar svítunnar. Hún er gáskfull, opinská og hetjuleg. Sjötta svítan er óvenju íþróttamannsleg í flutningi en það má að hluta til rekja til þess að hún var upphaflega samin fyrir svokallað piccolo selló – selló með fimm strengi frekar en fjóra. Í hefðbundnum flutningi er verkið því umskrifað fyrir fjögurra-strengja selló sem gerir það að verkum að verkið spannar allt raddsvið sellósins á hátt sem aðrar sellósvítur Bachs gera ekki.
Efnisskrá:
J.S. Bach: Svíta nr. 1 í G-dúr
Prelude
Allemande
Courante
Sarabande
Minuet I & II
Gigue
J.S. Bach: Svíta nr. 2 í d-moll
Prelude
Allemande
Courante
Sarabande
Minuet I & II
Gigue
Hlé
J.S. Bach: Svíta nr. 6 í D-dúr
Prelude
Allemande
Courante
Sarabande
Gavotte I & II
Gigue
Veitingastofur Hannesarholts eru opnar til kl.17 og helgardögurður er fram borinn til kl.14.30. Borðapantanir í síma 511-1904.