Silva & Steini í Hannesarholti
10/05/2024 @ 20:00 - 21:30
10. maí kl 20
Silva & Steini í Hannesarholti
Jazztvíeykið Silva & Steini samanstendur af söngkonunni Silvu Þórðardóttur og söngvaranum og píanóleikaranum Steingrími Teague, en þau gáfu út jazzplötuna More Than You Know á vegum Reykjavík Record Shop vorið 2022. Lög þeirra hafa hlotið ríflega 6,5 milljón streymi á Spotify síðan þá. Í framhaldinu skrifuðu þau undir hjá FOUND Recordings, bandarískri útgáfu sem sérhæfir sig í íslenskri tónlist, og hafa nú endurútgefið plötuna í viðhafnarútgáfu. Á komandi vikum má fólk eiga von á því að heyra nýtt efni frá tvíeykinu þar sem verið er að leggja lokahönd á nýja plötu sem mun bera titilinn “More Understanding” en líkt og sá titill gefur til kynna má segja að nú séu þau komin með meiri skilning á sjálfum sér og samstarfinu.
Þannig hefur hljóðheimur þeirra dýpkað á ýmsa vegu, draumkenndir undirtónar færðir á yfirborðið og lagaval einkennist af meiri leikgleði og frelsi. Sömuleiðis syngja þau meira saman og eru útsetningar almennt unnar meira í sameiningu. Efnisskráin verður bland af rykföllnum standördum og lögum af mærum jazzins og annarra stefna, og áherslan lögð á pláss, nærveru og samspil radda þeirra Silvu og Steina.
Tónleikarnir hefjast kl 20, miðaverð er 4.900 krónur og gengið er inn í Hljóðberg í Hannesarholti af Skálholtsstíg.
Ljósmynd: Anna Maggý