Sjálfsmyndir, ímyndir og menningarfærni. Vitnisburður kvæðahandrita frá 17. öld
15/04/2015 @ 20:00 - 22:00
| FreeFélag íslenskra fræða Á þriðja og síðasta rannsóknarkvöldi FÍF að vori flytur Dr.Þórunn Sigurðardóttir erindið: Sjálfsmyndir, ímyndir og menningarfærni. Vitnisburður kvæðahandrita frá 17. öld. Þórunn lýsir erindi sínu svo: Handrit sem innihalda sálma og trúarlegan kveðskap hafa löngum verið talin ætluð til iðkunar guðrækni í heimahúsum og er það vafalaust eitt meginmarkmiðið með gerð þeirra, a.m.k. opinbert markmið ef miðað er við algenga titilsíðutexta. Í fyrirlestrinum eru færð rök fyrir því að hlutverk slíkra handrita sé bæði flóknara og víðfeðmara en titilsíður gefa til kynna og að hlutverk þeirra sé ekki eins augljóst og virðist vera við fyrstu sýn. Skoðaðar verða nokkrar kvæðabækur sem voru skrifaðar handa börnum prófastsins sr. Jóns Arasonar í Vatnsfirði, og sumar af þeim sjálfum, til að sýna hvernig handritin og textarnir sem þau geyma eru þáttur í myndun félagslegrar og menningarlegrar sjálfsmyndar eigendanna og um leið þeirrar ímyndar sem fólk af þeirra standi vildi hafa í samfélaginu. Kvæðahandritin voru ekki einasta í eigu auðugrar efri stéttar fjölskyldu, sett saman henni til sálubótar og uppfræðingar, heldur vitna þau um menningarlega færni hennar, menningarmótun og ímyndarsköpun. Jafnframt eru þær merkilegar heimildir um bókmenntasmekk og menningarlegt andrúmsloft á heimili 17. aldar klerks sem tilheyrði einni auðugustu og valdamestu ætt landsins. Dr. Þórunn Sigurðardóttir er bókmenntafræðingur og stundar sjálfstæðar rannsóknir á fræðasviðinu.