SYNGJUM SAMAN Í BEINNI MEÐ ELÍNU HALLDÓRSDÓTTUR
26/04/2020 @ 14:00 - 15:00
Hannesarholt hefur hlúð að sönghefð landsmanna síðastliðin sjö ár. Í samkomubanni er beint streymi frá söngstund í Hljóðbergi Hannesarholts alla sunnudaga kl.14 og textar birtast á tjaldi. Elín Halldórsdóttir söngkona, tónskáld og rithöfundur stjórnar söngstundinni sunnudaginn 26.apríl kl.14.
Elín nam söng og píanóleik í Nýja Tónlistarskólanum hjá þeim Signýju, Sæmundsdóttur, Alinu Dubik, Svönu Víkingsdóttur og Rögnvaldi Sigurjónssyni. Hún var í 3 ár í London við London College of Music, þaðan sem leiðin lá til Kölnar í Þýskalandi þar sem hún nam hjá Lia Montoya-Palmen og Philip Doghan. Síðar lærði hún í Regensburg og stýrði þar kórunum Femmes Fatales og Spirit of Joy auk þess að koma oft fram opinberlega. Elín bjó nokkur ár í Keflavík eftir að hún flutti heim, þar sem hún kenndi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar auk þess að stofna Gospelkór Suðurnesja, sem breyttist síðar í Sönghóp Suðurnesja. Síðustu ár hefur hún starfað mikið við tónmenntakennslu og kórastarf í grunnskólum auk þess að gefa út efni sem má finna á SoundCloud síðu hennar, Spotify og í fyrra gaf Menntamálastofnun út söngleikinn “Ævintýri Sædísar skjaldböku” með 8 nýjum lögum, sem má finna á vef stofnunarinnar. Hún leggur mikla áherslu á sönglög fyrir börn og eftir hana liggja tugir sönglaga, bæði útgefin og óútgefin.