Hleð Viðburðir

Hannesarholt hlúir að innsta kjarna íslenskrar menningar, sönghefðinni, og býður uppá samsöng fyrir alla, unga sem aldna, íslendinga sem aðflutta, undir stjórn kunnáttufólks, eins og við höfum síðastliðin 8 ár frá stofnun Hannesarholts. Streymt er frá stundinni á fésbókarsíðu Hannesarholts, en einnig eru gestir velkomnir að taka þátt á staðnum. Frítt fyrir börn í fylgd með fullorðnum, sem greiða 1000 króna aðgangseyri.

Að þessu sinni er það engin önnur en Mjöll Hólm sem stýrir söngstundinni ásamt Hörpu okkar Þorvaldsdóttur. Allir landsmenn af eldri kynslóðinni þekkja nafn Mjallar, enda heyrðist rödd hennar í útvarpi landsmanna alla daga á árum áður. Mjöll kom fyrst fram fjórtán ára gömul á tónleikum á vegum Svavars Gests í Austurbæjarbíói 1959 og fáar íslenskar söngkonur eiga lengri feril að baki en hún. Mjöll söng með ýmsum hljómsveitum í gegnum tíðina og hefur gefið út nokkrar plötur. Hún nýtur virðingar sem ein af fyrstu rokksöngvurum íslenskrar tónlistarsögu og lagið hennar um hann Jón sem er kominn heim heyrist enn reglulega leikið í útvarpi og víðar. Það mun án efa vera á lagalistanum í Hannesarholti, ásamt Mamy blue og fleiri gamalkunnugum slögurum og tilhlökkunarefni að taka undir með henni í þeim.

Veitingstofur Hannesarholts eru opnar frá 11.30-17 alla daga nema mánudaga og helgardögurður er framreiddur til 14.30. Borðapantanir í síma 511-1904 og á hannesarholt@hannesarholt.is