SYNGJUM SAMAN MEÐ REYNI JÓNASSYNI
10/02/2019 @ 14:00 - 15:00
Reynir Jónasson stjórnar Syngjum saman í Hannesarholti sunnudaginn 10.febrúar kl.14, þar sem textar birtast á tjaldi og allir taka undir. Frítt fyrir börn í fylgd með fullorðnum sem greiða 1000 króna aðgangseyri.
Fjölmargir höfuðborgarbúar hafa heyrt Reyni þenja harmonikuna, en hann hefur ekki alltaf verið á suðvesturhorninu. Reynir er ættaður úr Suður-Þingeyjasýslu en tónlistarferillinn hófst þó á Akureyri um tvítugt þegar hann var í MA. Þegar hann flutti suður lék hann með sveitum eins og Hljómsveit Svavars Gests, Rómeó kvartettinum, Ragga Bjarna og Tríói Trausta Thorberg en síðar hlaut hann tónlistarskólastjóra- og organistastöðu á Húsavík þar sem hann bjó í átta ár. Eftir að hann flutti aftur suður starfaði hann sem organisti og kórstjórnandi í Neskirkju í 29 ár, tónmenntakennari í Álftamýrarskóla 13 ár og tónlistarkennari við Tónskóla Þjóðkirkjunnar um árabil. Til viðbótar hefur Reynir spilað með ýmsum hljómsveitum allan ferilinn. Eftir Reyni liggja nokkrar sólóplötur, sú nýjasta, orgelplatan, kom á disk á síðasta ári. Reynir mun taka með sér eintök til sölu í samsönginn.