Hleð Viðburðir

Alþjóðlegi tangóhópurinn leikur tangóa eftir Astor Piazzolla og fleiri tangó-tónskáld. Einnig verða flutt verk eftir pólska tónskáldið Szymon Sutar og franska tónskáldið Maurice Ravel.

Hljóðfæraleikarar eru Guido Bäumer saxófónn, Aladár Rácz píanó, Hávarður Tryggvason kontrabassi og Krzysztof Olczak harmónikka og útsetningar.

Almennt miðaverð 2000 krónur, 1000 krónur fyrir eldri borgara, öryrkja og námsmenn.

 

Guido Bäumer saxófónn

er frá Norður-Þýskalandi. Guido hefur verið búsettur í Hafnarfirði í 10 ár. Hann stundaði tónlistarnám í Bremen í Þýskalandi þar sem hann lauk kennaraprófum á bæði saxófón og þverflautu.

Framhaldsnám stundaði Guido við Tónlistarháskólann í Basel í Sviss þar sem
hann lauk einleikaraprófi með hæstu einkunn og við Bowling Green State
University í Ohio í Bandaríkjunum. Á Íslandi hefur Guido m.a. leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput-hópnum, Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (einnig einleik í saxófónkonsert eftir J. Ibert) og haldið spunatónleika með tölvubreyttum hljóðum. Þá hefur Guido frumflutt verk eftir íslensk tónskáld. Guido kennir við skólahljómsveit Víðistaðaskóla og við Tónlistarskólann í Kópavogi og er einnig stundakennari við Listaháskólann.

 

Aladár Rácz píanó

er fæddur í Rúmeníu árið 1967. Hann stundaði fyrst nám í
píanóleik við Georges Enescu tónlistarskólann í Búkarest en síðan
framhaldsnám við Tónlistarháskólana í Búkarest og Búdapest. Hann hefur leikið á tónleikum víðsvegar um heiminn, leikið inn á geisladiska og unnið til verðlauna fyrir
píanóleik í alþjóðakeppnum. Á árunum 1999-2013 starfaði Aladár sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Húsavíkur og lék með ýmsum kórum og söngvurum á Norður- og Austurlandi. Hann var einnig um tíma meðleikari framhaldsnemenda við Tónlistarskólann á Akureyri. Aladár hefur haldið nokkra einleikstónleika í Salnum í Kópavogi og hefur verið einleikari með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í píanókonserti nr.1 eftir Ludwig van Beethoven og í píanókonserti nr.1 eftir Johannes Brahms. Aladár hefur verið búsettur á höfuðborgarsvæðinu frá sumri 2013 og kennir við Tónlistarskólann Do Re Mi, Söngskóla Sigurðar Demetz og er meðleikari í Listaháskólanum.

 

Hávarður Tryggvason kontrabassi

stundaði nám við Tónskóla Sigursveins en hélt árið 1983 til framhaldsnáms við Tónlistarháskólann í París þar sem aðalkennari hans var J. M. Rollez. Árið 1986 útskrifaðist hann þaðan með fyrstu einkunn og lauk tveimur árum síðar einnig námi frá einleiksdeild skólans. Samhliða náminu lék hann í atvinnuhljómsveit Tónlistarháskólans í París. Hávarður fluttist til Belgíu árið 1989 og hóf störf með Konung­ legu flæmsku óperuhljómsveitinni í Antwerpen. Jafnframt stundaði hann framhaldsnám við tónlistarháskólann þar í borg hjá Etienne Siebens. Árið 1995, eftir 12 ára dvöl erlendis, fluttist Hávarður aftur til Íslands og tók við stöðu leiðandi kontrabassaleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hann gegnir enn í dag. Jafnframt kennir hann við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann hefur komið fram sem einleikari og verið virkur í flutningi kammertónlistar hér heima og erlendis, m.a. með Caput, Kammersveit Reykjavíkur, Reykjavík Midsummer Music og Salon Islandus.

 

Krzysztof Olczak harmónikka og útsetningar

Krzysztof fæddist í Lodz í Póllandi. Hann stundaði nám í harmónikkuleik og tónsmíðum við háskólana í Varsjá og Gdansk. Hann kennir harmónikkuleik og tónsmíðar við háskólann í Gdansk, ásamt því að sinna tónsmíðum. Krzysztof bjó á Íslandi um tíma og hefur nýtt sér íslensk þjóðlög í tónsmíðum sínum. Hann er einnig eftirsóttur útsetjari og hljóðfæraleikari og hefur haldið tónleika í hinum ýmsu löndum. Fjölmörg verka hans fyrir harmónikku eru orðin vel þekkt um allan heim og eru oft notuð fyrir inntökupróf eða í keppnum.

Staðsetning

Hjóðberg
Grundarstíg 10
Reykjavik, Reykjavík 101 Iceland
+ Google Map
Phone
5111904
View Staðsetning Website