Þjóðlagasveitin Þula á leið til Kína
14/06/2018 @ 19:30 - 19:45
Þjóðlagasveitin Þula er skipuð 8 ungmennum á aldrinum 16-18 ára á efri stigum náms við Tónlistarskóla Kópavogs. Þula er eina þjóðlagasveitin sinnar tegundar þar sem ungmenni iðka flutning á íslenskri þjóðlagatónlist með söng, hljóðfæraleik og dansi sér og öðrum til gleði. Þjóðlagasveitin hefur þegar komið víða við, þar á meðal tók Þula þátt í alþjóðlegu þjóðlagahátíðinni Moonlight á Spáni sumarið 2017, Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði 2016, í Nótunni í Eldborg Hörpu 2016, í Hofi á Akureyri, Barnamenningarhátíð í Reykjavík og Kópavogi, Ormadögum í Kópavogi og víðar. Hópurinn hefur einnig leitt vinnustofu í þjóðlagatónlist á norrænu þjóðdansa- og þjóðlagamóti í Mosfellsbæ og tekið á móti þjóðlagahópi barna frá Kólumbíu.
Þula hefur verið valin til þátttöku í alþjóðlegri listahátíð ungmenna í borginni Tianjin í Kína 26.-31. júlí. Það er mikill heiður að vera valin til þátttöku í hátíðinni, en þetta er í annað sinn sem Kínversk-íslenska menningarfélagið hefur milligöngu um að senda íslenska fulltrúa á hátíðina. Listahátíðin í Tianjin er hátíð sem haldin er sameiginlega af Kínverska þjóðarráðinu er vinnur að vináttusamböndum við erlend ríki, Kínverska menningarráðinu og borgarstjórn Tianjin borgar, en þema hátíðarinnar er friður, vinátta og framtíð. Hátíðin er gríðar stór og gert ráð fyrir þátttakendum frá allt að 100 löndum.
Þulu skipa:
Anna Margrét Jónudóttir – fiðla, söngur, dans
Hekla Martinsdóttir Kollmar – fiðla, söngur
Sóley Lúsía Jónsdóttir – fiðla, söngur, dans
Guðrún Vala Matthíasdóttir – flauta, söngur, dans
Kristjana Ólöf Árnadóttir – flauta, söngur, dans
Jónína Matthíasdóttir – flauta, söngur, dans
Elvar Bjarnason – selló, söngur, dans
Dagur Bjarnason – kontrabassi, söngur, dans
stjórnandi: Eydís Franzdóttir og
aðstoðarstjórnandi: Pamela De Sensi
Hægt er að kynnast Þulu betur á Facebook Þjóðlagasveitarinnar Þulu eða á myndbandi frá tónleikum sveitarinnar :