Ýmis fróðleikur

Reykjavík 1926

Eftirfarandi myndband er að finna á Youtube og sýnir afar skemmtilegar svipmyndir frá Reykjavík árið 1926. Höfundur þess hét Burton Holmes.

Á myndbandinu sést m.a. þegar komið er til hafnar í Reykjavík; miðbærinn s.s. dómkirkjan og Austurvöllur; börn og unglingar; lögreglumenn í Reykjavík; glíma; þarfasti þjónninn og fleira. Afar skemmtileg heimild um liðna tíð.

“Eimreið, hafnargerð og fyrsti fordinn” grein eftir Jónas Haraldsson

Árið 1913, fyrir réttri öld, voru samþykkt lög sem veittu konum kosningarétt – þó aðeins fertugum og eldri svo kjósendum fjölgaði ekki um of auk ótta við sérframboð kvenna. Raunveruleg bílaöld hófst þetta ár með tveimur fyrstu Ford-bílunum og tvær eimreiðar voru fluttar til landsins til malarflutninga vegna hafnargerðar í Reykjavík. Sjálfstæðisbaráttan kristallaðist í fánamálinu og Morgunblaðið hóf göngu sína.

Þegar árið 2013 er gengið í garð þykir rétt að líta öld aftur í tímann. Hvað gerðist helst á Íslandi á því herrans ári 1913 þegar heildarútgjöld ríkisins voru 1,7 milljónir króna? Nú fæst Chevrolet Spark fyrir þá upphæð, talsvert minni bíll en fyrsti Fordinn, opinn T-Ford blæjubíll, sem fluttur var til landsins í júní þetta ár og raunar annar í september. Í bílaflotann bættist sama haust bifreið af Overland-gerð sem næstu árin keppti við Ford. Strax árið 1913 var farið að nota Fordana í leiguakstur. Raunveruleg bílaöld var hafin.

Sjálfstæðisbarátta og kosningaréttur kvenna

Sjálfstæðisbaráttan var í fullum gangi og hámark ársins var þegar skipverjar á danska varðskipinu Fálkanum, sem var ytri höfninni í Reykjavík, tóku með valdi bláhvítan fána af Einari Péturssyni verslunarmanni sem réri fram á höfnina á litlum kappróðrarbáti með þann bláhvíta á stöng í skut. Reykvíkingar svöruðu ofbeldi herraþjóðarinnar með því að draga hvarvetna bláhvíta fána að húni. Áður hafði Dannebrog blakt víða í heiðurskyni við danska skipið.

Á fleiri vígstöðvum var barist gegn óréttlæti og yfirgangi. Þetta ár samþykkti Alþingi frumvarp um kosningarétt kvenna – og raunar vinnumanna einnig. Ekki var þó gengið langt í þeim efnum því inn var sett ákvæði um 40 ára aldurstakmark sem átti svo að lækka smátt og smátt. Þingmenn þess tíma, karlar eingöngu, töldu það of mikla röskun að fjölga kjósendum í einu vetfangi um tvo þriðju. Betra væri að fjölgunin kæmi í smá skömmtum. Þess var enn fremur getið, bæði í umræðum á Alþingi og í blaðagreinum, að sumir karlanna óttuðust sérframboð kvenna.

Bönnuð leiksýning og Biograf

Síðla vetrar sömdu nokkrir stúdentar í Reykjavík gamanleikinn Allt í grænum sjó. Revían var í senn stjórnmálaádeila og grín um samband manna þessa heims við framliðna – og úr hófi þótti ganga þegar „beitt var upp í klámvindinn,“ eins og það var kallað þar sem „hjú eru sýnd í rúminu … miklum fjölda áhorfenda skilst svo, sem þeim væri ætlað að sjá að nú væri athöfn í byrjun, sem skynlausar skepnur einar láta fara fram í annarra augsýn…“ Það fór svo að lögreglustjóri varð við kröfu um bann á sýningum revíunnar og stúdentar urðu að endurgreiða selda aðgöngumiða.

Almenningur átti þó annan kost til afþreyingar en leiksýningar. Kvikmyndahús voru að festa sig í sessi en árið 1913 stofnaði Árni Þorsteinsson húsgagnasmiður, í félagi við aðra, Kvikmyndafélag Hafnarfjarðar. Það var forveri Hafnarfjarðarbíós sem tók til starfa ári síðar. Fyrst var líka getið kvikmyndasýningar á Siglufirði árið 1913 í svonefndu Biograf-húsi – en fyrri heimstyrjöldin sem hófst ári síðar varð til þess að tefja fyrir að sýningar hæfust með reglubundnum hætti.

Hafnargerð og tvær eimreiðar

Margt horfði til framfara. Eftir áralangan undirbúning hófst hafnargerð í Reykjavík. Gufuskip kom í mars með stórvirk verkfæri og efni til hafnargerðarinnar. Mikla hafnargarða átti að hlaða milli Örfiriseyjar og lands, Grandagarð, og jafnframt tvo garða hvorn á móti öðrum milli eyjarinnar og Batterísins, Örfiriseyjargarð og Ingólfsgarð. Miklar uppfyllingar voru fyrirhugaðar og smíði hafskipabryggju. Til að ná í möl og grjót í þessa miklu framkvæmd var lögð um 12 kílómetra löng járnbraut í hálfhring um bæinn en efnistaka átti að fara fram í Öskjuhlíð og á Skólavörðuholti. Tveir gufuknúnir lyftikranar voru notaðir við að hlaða járnbrautarvagnana og gufuknúin ámokstursvél til að moka mölinni. Tvær eimreiðar voru fluttar til landsins árið 1913 og notaðar við gerð hafnarinnar – en slík tæki náðu ekki fótfestu á landinu bláa og voru aldrei notuð sem samgöngutæki eins og raunin varð í öðrum löndum. Samt varð járnbrautarslys á Íslandi. Þann 4. maí árið 1913 varð stúlka undir járnbrautarvagni er verið var að skemmta fólki með því að flytja það um Eskihlíðarjárnbrautina. Stúlkan ætlaði að stökkva af vagninum í því að lestin stansaði en varð undir og fótbrotnaði og hlaut fleiri meiðsl.

Af samgöngubótum í Reykjavík má nefna að lokið var að leiða lækinn, sem rennur úr Tjörninni norður í sjó og skiptir í sundur miðbænum og austurbænum, í stokk undir þá götu sem nafn ber af læknum, Lækjargötu.

Eldgos og arnarfriðun

Af náttúrufari fyrir réttri öld er þess helst að geta að allmikið gos varð við Hrafnabjörg, austan Heklu. Þann 25. apríl urðu menn varir við jarðskjálftakippi á Suðurlandi og um morguninn sást gufumökkur hefjast hátt á loft norðaustur af Heklu. Um kvöldið sáust eldstólpar bera við himin. Bjarmi af jarðeldinum sást alla leið til Reykjavíkur. Eldurinn var mestur í þremur gígum í langri sprungu. Upp úr aðalgígnum stóð eldsúla og eldfljót rann í bröttum fossi niður á láglendið. Guðmundur Björnsson landlæknir rannsakaði gosið og hið nýja hraun nefndi hann Lambafitjahraun. Þegar leið fram á sumarið virtist draga smátt og smátt úr gosinu og bar lítið á því þar til í byrjun september að eldar virtust færast í aukana. Mekkir risu á ný og eldroði var á himni um nætur en síðan kulnaði jarðeldurinn.

Haförninn var friðaður þetta ár til að koma í veg fyrir að þessi konungur fuglanna yrði aldauða hér á landi en ljóst var að stofninn var nánast hruninn. Íslendingar voru fyrstir allra þjóða til að friða örninn. Á þeirri öld sem liðin er hefur stofninn braggast heldur þótt enn eigi arnarstofninn í vök að verjast.

Morgunblaðið og fyrsta fréttamyndin

Morgunblaðið hóf göngu sína 2. nóvember árið 1913 – og kemur enn út. Það má því búast við því að Óskar Magnússon útgefandi og ritstjórarnir, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, slái í rjómapönnsur næsta haust til að fagna aldarafmælinu. Upphafsmaður að stofnun Morgunblaðsins var Vilhjálmur Finsen sem hafði átt sér þann draum í fjölda ára að koma út blaði í Reykjavík. Ólafur Björnsson, vinur hans og samherji, lagði til húsnæði og prentaðstöðu í Austurstræti 8 þar sem Ísafold var til húsa.

Á upphafsdögum Morgunblaðsins birtist fyrsta fréttamynd sem gerð var hér á landi, af Dúkskoti, vettvangi morðmáls þar sem kona myrti bróður sinn með því að byrla honum rottueitur í skyri. Bróðirinn lést 13. nóvember 1913 í Landakotsspítala eftir innantökur og uppsölu.

Hagstofan og Eimskip í augsýn

Þetta sama haust gengu í gildi lög um Hagstofu Íslands. Hlutverk hennar var, eins og sagði í þeim lögum, „að safna skýrslum um landshagi Íslands, vinna úr þeim og koma þeim fyrir almennings sjónir.“ Hagstofan tók til starfa um nýár 1914 en Þorsteinn Þorsteinsson var skipaður hagstofustjóri.

Allt árið 1913 var unnið að stofnun íslensks gufuskipafélags sem getur „er því vex fiskur um hrygg, tekið að sér bæði millilandaferðirnar og strandferðirnar.“ Óhætt er að þjóð og þing hafi sameinast um það félag enda brugðust menn hart við er Sameinaða gufuskipafélagið danska reyndi að kyrkja hið nýja íslenska skipafélag í fæðingu. Menn voru nær orðlausir yfir „fáheyrðri frekju hins danska félags og Íslendingar svöruðu með því að kaupa hlutabréf í innlenda gufuskipafélaginu fyrir þúsundir króna. Framkoma danska félagsins var sögð í senn „óprúttin og óhyggileg banatilræðisviðleitini“. Skipafélagið varð til í janúar ári síðar, „óskabarn þjóðarinnar“, Eimskipafélag Íslands, sem við þekkjum enn í dag.

Það styttist því í stórafmælið á þeim bænum, ekki síður en á Mogganum.

Jónas Haraldsson

jonas@frettatiminn.is

Sunnudaginn 6. febrúar 1944 birtist í Lesbók Morgunblaðsins grein eftir dr. Magnús Jónsson prófessor um 40 ára afmæli innlendrar stjórnar. Greinina er að finna hér að neðan í þremur hlutum.

100 ára afmæli kosningarréttar kvenna