Á inniskónum: Floni & Magnús Jóhann
20. apríl @ 20:00 - 21:00
Á inniskónum er spjalltónleikaröð Magnúsar Jóhanns píanóleikara þar sem hann fær til sín gesti víðsvegar að úr tónlistarlífi Íslendinga. Magnús setur tónlist viðmælenda sinna í nýjan búning með dyggri aðstoð hljóðgervla, trommuheila og hljómborða af ýmsum toga og spyr þá svo spjörunum úr. Gestur Magnúsar þann 20. apríl er rapparinn Floni en hann hefur verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins frá því að hann hóf að gefa út tónlist árið 2017. Undanfarin misseri hafa þeir unnið hörðum höndum að því að klára nýja breiðskífu Flona, Flona III. Þeir munu telja í ný lög af plötunni auk eldri slagara og tala um sköpunarferlið og feril Flona.
Miðaverð er 5.900 kr og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00. Húsið opnar 19:30 og gengið er inn í Hljóðberg í Hannesarholti af Skálholtsstíg.