Davíðsljóð í Hannesarholti
21/01/2016 @ 20:00
Í þessari afmælisdagskrá leiðir Valgerður gesti á vit skáldsins unga, stiklar á stóru í bernskusögu hans, hugleiðir hvernig skáldið varð til og les nokkur af fyrstu ljóðunum.
Valgerður H. Bjarnadóttir ólst upp með ljóðum og öðrum verkum Davíðs, eins og þúsundir annarra Íslendinga. Hún las þau, lærði og tengdist sumum þeirra sterkum böndum. S.l. sumar gegndi hún hlutverki húsfreyju í Davíðshúsi og sökkti sér þá á ný inn í þennan heim ástar, sögu, trúar, ævintýra og þjáningar, sem fáir hafa náð að mála eins sterkum litum og Davíð. Vikulega var hún þar með dagskrá um ljóðin og líf Davíðs út frá ólíkum sjónarhornum og nú býður Hannesarholt upp á þá dagskrá sunnan heiða. Valgerður er félagsráðgjafi með MA í trúarheimspeki og menningarsögu.
21. janúar 1916 var Davíð Stefánsson staddur í Kaupmannahöfn og hélt upp á 21 árs afmæli sitt með félaga sínum og afmælisbróður, Birni O. Björnssyni. Þeir voru báðir félagar í Boðn, bræðralagi ungskálda. Davíð hafði örfáum dögum áður fengið inngöngu í félagið eftir að hafa flutt þeim nokkur af ljóðum sínum. Boðnarbræðrum var boðið í afmælið auk fleiri vina, og Björn, sem vildi koma þessum bróður á framfæri, hafði einnig boðið þangað Sigurði Nordal. Sigurður var eldri en þeir félagar og var kominn til nokkurra metorða í bókmenntaheiminum. Í veislunni las Davíð ljóðabálkinn Skammarrímur, en einnig lítið ljóð um ástir og þjáningu, ort í orðastað konu. Hann kallaði ljóðið Komdu. Sigurður heillaðist. Erindið sem snerti hann dýpst var þetta:
„Ekki skal það kvelja þig
skóhljóðið mitt,
ég skal ganga berfætt
um blessað húsið þitt.“
Bókmenntafræðingurinn stóð upp að lestri loknum og las upp dómsorðið: „Þessi maður er skáld!“ Í kjölfarið birtust sjö af ljóðum Davíðs í tímaritunum Eimreiðinni og Iðunni, fyrir milligöngu Sigurðar, og þau slógu í gegn. Davíð Stefánsson var orðinn skáld.
Veitingastofurnar opna kl. 18.30 fyrir þá gesti sem vilja snæða léttan kvöldverð í formi menningarplatta áður en dagskrá hefst. Menningarplatta þarf að panta fyrirfram með borðapöntun í síðasta lagi kl. 16.00 daginn fyrir. Nánari upplýsingar hér.