Hleð Viðburðir
„Ég nefni nafnið þitt“  ástarljóð Davíðs Stefánssonar

Í þessari viðburðaröð leiðir Valgerður H. Bjarnadóttir

gesti í ferð um ljóð og líf Davíðs.

Davíð er skáld ástarinnar. Hann elskar heitt og einlæglega,

oft blítt og barnslega, en stundum er ástin full dulúðar, djúp,

tryllt og jafnvel tortímandi.

Í óbirtri grein sem hann skrifaði eftir dvöl sína í Assísí, þar

sem hann átti eitt af dásamlegustu ævintýrum ástarinnar,

segir hann: „Það getur haft meiri og dýpri áhrif á suma að

heyra nafn ástvinar síns nefnt, en að hlýða á heimsfræga

hljómsveit leika sónötu eftir Beethoven.“

Og í þeim anda yrkir hann:

Ég nefni nafnið þitt,

og næturmyrkrið flýr,

því ljóma á loftið slær

hið liðna ævintýr.

Ég nefni nafnið þitt

og nýja heima sé;

þar grær hið villta vín

þar vagga pálmatré.

Ég nefni nafnið þitt,

og nóttin verður hlý.

Ég heyri klukknaklið

frá kirkju í Assisí.

Þú kemur móti mér

í minninganna dýrð.

Í sólskini og söng

er sál mín endurskírð.

Á einn hátt eru allar konur og allar þær jarðnesku, himnesku og huldu verur sem Davíð yrkir

ástarljóð sín til, ein og hin sama, um leið og hver og ein á sinn sérstaka stað í hjarta hans.

Við hefjum Davíðsljóð vetrarins með ástarljóðunum, rifjum þau upp og rýnum örlítið í þau og

sögurnar sem tengjast þeim, en umfram allt leyfum við þeim að hljóma og enduróma í okkar

eigin hjörtum. Dagskráin verður haldin í veitingastofunum á 1.hæð og er tilvalið að fá sér kaffi á

undan.

Verið velkomin!

Valgerður H. Bjarnadóttir ólst upp með ljóðum og öðrum verkum Davíðs, eins og þúsundir annarra

Íslendinga. Hún las þau, lærði og tengdist sumum þeirra sterkum böndum.  S.l. sumar gegndi hún

hlutverki húsfreyju í Davíðshúsi og sökkti sér þá á ný inn í þennan heim ástar, sögu, trúar,ævintýra

og þjáningar, sem fáir hafa náð að mála eins sterkum litum og Davíð. Vikulega var hún þar með

dagskrá um ljóðin og líf Davíðs út frá ólíkum sjónarhornum og nú býður Hannesarholt upp á þá

dagskrá sunnan heiða. Valgerður er félagsráðgjafi með MA í trúarheimspeki og menningarsögu.

 

Upplýsingar

Dagsetn:
08/11/2015
Tími:
16:00
Verð:
kr.1500
Viðburður Category:
Tök Viðburður:
, , ,
Vefsíða:
http://midi.is/atburdir/1/9265/Bokmenntakvold-Davidsljod