Hleð Viðburðir

„Landamæri málfrelsisins: Popúlismi og pólarísering“

Þetta fyrsta heimspekispjall vetrarins í Hannesarholti er haldið í samstarfi við Félag áhugamanna um heimspeki.

Frummælandi verður Róbert H. Haraldsson og nefnist erindi hans „Málfrelsisskerðing og gerræðisvandinn.“ Mun hann ræða nýjar áskoranir sem steðja að málfrelsi. Að erindi Róberts loknu mun panell sérfræðinga ræða hvernig umræða um flóttamenn og hælisleitendur, stöðu aldraðra, öryrkja og fátækra hefur hvort tveggja í senn fengið aukið rými í almennri umræðu og einkennst af nálgunum sem vekja óhug hjá sumum.

Þáttakendur í pallborði auk Róberts Haraldssonar, heimspekings, eru:
Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi hatursglæpa og mannfræðingur,
Jóhann Björnsson, heimspekingur.
Unnur Dís Skaptadóttir, mannfræðingur

Meðal áhrifa árásinnar á Charlie Hebdo og Múhameðsteikninganna dönsku var að málfrelsisumræðunni var stillt upp þannig að áhersla var lögð á hvort og hvernig verja megi málfrelsið frá utanaðkomandi ógn. Þegar önnur samfélög með aðra sýn á hlutverk opinberrar umræðu og aðrar hugmyndir um stöðu einstaklingsins í samfélaginu hafa komið fram og gert atlögu að hugmyndum okkar um málfrelsi þá virðist meginlínan í umræðunni hafa verið sú að þéttast um þetta grundvallaratriði vestrænnar menningar og spyrna við fótum. Fyrir vikið hefur umræðan tekið á sig myndina „við-gegn-þeim“. En hvað með þegar ógnin kemur að innan? Undanfarin misseri hefur umræða um flóttamenn og hælisleitendur, stöðu aldraðra, öryrkja og fátækra hvort tveggja í senn fengið aukið rými í almennri umræðu og einkennst af nálgunum sem vekja óhug hjá sumum. Pólaríseringu umræðunnar, uppstillingar afarkosta, orðfæri sem ýtir undir ótta á því óþekkta og nú síðast, uppgangi fasisma í Bandaríkjunum og Evrópu hafa verið fyrirferðamikil í umræðunni. Hvernig eigum við að stilla af hugmyndir okkar um málfrelsi af með þetta síðastnefnda í huga, kannski sérstaklega í ljósi þess að sú þjóð sem hvað verst varð úti í slíkri pólaríseringu á 20. öld, Þjóðverjar, brá einmitt á það ráð að takmarka málfrelsið þegar kom að táknum og orðfæri fasismans.

Það eru gamlar fréttir og nýjar að þjóðfélagshópum hætti til að afmarka sig. Þeir lesa fyrst og fremst ákveðna miðla eða hlusta á ákveðnar útvarpsstöðvar. Popúlískir stjórnmálaleiðtogar afla sér fylgis meðal annars með því að nota orðfæri þessara hópa og þeirra miðla þar sem þeir birtast.

Má hugmynd okkar um málfrelsi sín mikils þegar sama málfrelsi fær aðeins að blómstra í afmörkuðum afkimum internetsins þar sem algóritmar Google og Facebook stýra því hvað við sjáum? Er ástæða til þess að takmarka málfrelsi þegar það virðist ýta undir pólaríseringu? Er popúlismi ógn við lýðræðisleg samfélög eða eðlilegur hluti þeirra? Vinnur málfrelsið gegn fasisma þegar umræðan er pólaríseruð? Eða er málfrelsinu beitt til þess einmitt að auka á pólaríseringu og styðja þannig við uppgang fasisma?

Aðgangur er ókeypis. Léttur kvöldverður á sanngjörnu verði verður framreiddur í veitingastofunum frá kl.18.30 fyrir þá sem það kjósa. Borðapantanir í síma 511-1904 og á hannesarholt@hannesarholt.is.