Hleð Viðburðir

Hlynur Helgason Myndir á pappír

Hlynur Helgason opnar málverkasýningu sína í Hannesarholti fimmtudaginn 23.nóvember kl. 15. Á þessari sýningu, sem er önnur sýning Hlyns í Hannesarholti, sýnir hann nýjar myndir frá þessu ári, allar unnar á vatnslitapappír í stærðinni 57 x 57 cm. Myndirnar eru tvennskonar. Annars vegar eru vatnslitamyndir þar sem unnið er á kerfisbundinn hátt með litina og hins vegar abstrakt ljósmyndaverk unnin með aðferð bláprents.

Vatnslitamyndirnar eru unnar á kerfisbundinn hátt. Hver mynd hefur 16 rendur. Lega hverrar randar, litur, breidd og stefna er ákvörðuð út frá kerfi sem byggir á aukastöfum tölunnar pí. Niðurstaðan eru myndir með yfirbragð abstraktmynda. Sérstaða þeirra byggir á blöndun marglaga litaflata sem dregur fram eðli vatnslitarins.

Ljósmyndaverkin eru myndröð þar sem myndefnið er prentverkstæði Íslenskrar grafíkur í Hafnarhúsinu. Í myndunum eru blæbrigði og smátriði verkstæðisins stækkuð upp í þröngum ramma og fá með því abstrakt yfirbragð. Tæknin sem notuð er við myndgerðina er bláprent, eða kýanótýpa, sem er ljósmyndaaðferð frá árinu 1842. Myndirnar, sem eru unnar á vatnslitapappír, verða í upphafi skærbláar. Þær eru síðan bleiktar og tónaðar með rauðfuruberki sem gefur dökkum tónum málmkenndan blæ og ljósum litum ryðkenndan litatón sem á vel við myndefnið.

Hlynur Helgason á að baki langan feril sem myndlistarmaður. Hann lauk prófi frá málaradeild Myndlista- og handíðakólans árið 1986, MA-gráðu í myndlist frá Goldsmiths’ College í London árið 1994 og doktorsgráðu í heimspeki listmiðlunar frá European Graduate School árið 2011. Hlynur vinnur jöfnum höndum málverk og ljósmyndaverk. Hann á að baki öflugar rannsóknir á birtingarmáta málverks sem miðils sem birtast í málverkum hans. Samhliða þessu vinnur hann ljósmyndir sem byggjast á sögulegum aðferður og vinnu með túlkun veruleikans í áhrifaríkum myndheildum. Auk myndlistarstarfsins er Hlynur einnig dósent í listfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands.

Sýningin er sölusýning og stendur til 12.desember.