Hleð Viðburðir

Höfuð konunnar er…

Minningardagskrá um Ingibjörgu Haralds
Kl. 15:00 og fram eftir degi.
Miðasala á midi.is
Verð: 1500,-

Nokkrar skáldkonur bjóða til samverustundar með upplestri og frásögnum í tilefni 75 ára afmælis Ingibjargar Haraldsdóttur, skálds og þýðanda, sem lést í nóvember s.l.  Tvær Ingibjargir hafa bæst í hópinn, tónlistarkonurnar Ingibjörg Fríða Helgadóttir söngkona og Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir píanóleikari og tónskáld munu flytja tónlist við ljóð Ingibjargar Haralds.

Ingibjörg var engu skáldi lík og afkastamikil skáldkona. Hún vann sem blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi á Þjóðviljanum um árabil. Frá 1981 var hún ljóðskáld og þýðandi að aðalstarfi, en fyrsta ljóðabók hennar, Þangað vil ég fljúga, kom út árið 1974. Ingibjörg gaf út sex ljóðabækur, þar af eina safnbók, og hafa ljóð hennar verið þýdd á ungversku, þýsku, lettnesku, litháísku, búlgörsku, rússnesku, ensku og Norðurlandamál. Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, meðal annars Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Menningarverðlaun DV fyrir þýðingu sína á Fávitanum eftir Dostojevskí og Íslensku þýðingarverðlaunin 2004 fyrir Fjárhættuspilarann eftir sama höfund.

Ingibjörg var einnig afkastamikill þýðandi, aðallega úr spænsku og rússnesku. Hún þýdddi meðal annars skáldsögur eftir Dostojevskí og Búlgakov, fjölda leikrita eftir ýmsa höfunda og þýðingar hennar á ljóðum og smásögum spænsku- og rússneskumælandi höfunda hafa birst í tímaritum og verið fluttar í útvarpi.

Það eru kollegar hennar Auður Jónsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Kristín Steinsdóttir, Olga Guðrún Árnadóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir og Vigdís Grímsdóttir sem standa fyrir viðburðinum og lesa úr verkum Ingibjargar.