Hleð Viðburðir

Svo virðist sem áhugi myndlistarmanna á andlegum viðfangsefnum hafi aukist á undanförnum árum, en það má greina með auknum fjölda sýninga sem fjalla um slík efni. Þrátt fyrir þá staðreynd virðast listfræðingar og sýningarstjórar gjarnan líta fram hjá þeim áhrifum sem andleg iðkun listamanna hefur haft á inntak verka þeirra og veitist þeim oft erfitt að skilgreina og túlka dýpra innihald listaverkanna. Eflaust er megin ástæðan sú að hugmyndin um hið andlega virðist ekki samrýmast hugmyndum okkar um samtímalistir og menningu almennt.

En hvað er hið andlega? Er það hugtak gjaldgengt í vitsmunalegri umræðu um list? Í þeirri hugmyndafræði sem nútímalisthugsun spratt upp af var hið andlega í listinni nánast lykilhugtak, samanber kenningar Wassily Kandinsky Um hið andlega í listinni. Þegar talað er um hið andlega í listum er annars vegar átt við; andann í listinni, þann kraft sem býr í listaverkinu og hefur áhrif á þá sem njóta þess, og hins vegar túlkun listamannsins á andanum eða hinu yfirskilvitlega.

Yfirskrift sýningarinnar Hvíslið í djúpinu er vísun í andlega upplifun listamannsins Helgu Sigríðar Valdemarsdóttur sem hún varð fyrir við vinnslu verkanna. Verkin sýna hluti sem ekki eru sýnilegir sem slíkir, þau líkja ekki eftir því sem vanalega sést, en engu að síður sýna þau hluti sem eru til eða hafa verið til samkvæmt dulspekilegum kenningum og er þar af leiðandi hægt að sýna á hlutbundinn hátt. Verkin miðla hugmyndum um hina dulrænu fjórðu vídd, þau eru frumspekileg og miðla andlegri vídd innsæis og æðri sannleika, eða eins og listamaðurinn orðaði það sjálfur:

„Verkin mín hafa yfir sér einhvers konar hugleiðslublæ. Sömu smáatriðin eru endurtekin í sífellu, líkt og þegar mantra er kyrjuð og orðin endurtekin í stöðugum takti. Einn ákveðinn litur er afgerandi í myndunum mínum – til að ná fram ró, mýkt og mætti litarins. Liturinn hefur aðdráttarafl og hreyfir við manneskjunni. Ég vinn myndirnar mínar út frá miðju (rödd sálarinnar) í algjöru flæði sem er í stöðugri útvíkkun.“

Af orðum listakonunnar má ráða að hún hafi upplifað yfirskilvitleg svið. Í verkunum má öðlast innsýn í þá andlegu handleiðslu sem Helga hefur hlotið í gegnum heilun og hugleiðslu, þar sem myndefnið kemur beint í gegnum hana, án undirbúnings og af miklu afli. Segja má að málverkin á sýningunni vísi ekki í þann hverfula heim sem augað sér, heldur séu þau leið til að öðlast dýpri skilning á því sem kalla mætti hinn sanna, andlega heim. Hlutverk listamannsins er ekki að sýna það sem hann sér heldur það sem er.

Helga Sigríður Valdemarsdóttir (f. 1975) útskrifaðist af Mynd- og handíðarbraut VMA 1997 og lauk diplómanámi í myndlist frá Myndlistarskólanum á Akureyri 2003. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar á Akureyri. Meðfram myndlistinni hefur Helga starfað sem heilari undanfarin ár.

Vigdís Rún Jónsdóttir
Listfræðingur

Upplýsingar

Byrja:
05/10/2019
Enda:
25/10/2019
Viðburður Category:

Staðsetning

Veitingastofur 1.hæð