Hleð Viðburðir

Stella Sæmundsdóttir opnar málverkasýningu sína í Hannesarholti fimmtudaginn 14.desember kl.15-17. Á sýningunni sem nefnist INNRI UMBROT eru nýleg verk Stellu unnin á striga með blandaðri tækni, vatnslitum, akrýllitum og kvoðu. Innblástur hennar kemur frá eigin ofvirka huga sem og tengslum við náttúruna. Henni er hugleikið hvernig innri og ytri heimar okkar tengjast og virka hvor á annan. Hún notar verkin til að túlka orkuna sem fer í krefjandi hugsanir um flókin málefni og er öðrum ósýnileg. Stella vinnur mikið með form höfuðsins sem vísar í þennan ósýnilega innri heim sem tengist lífinu öllu, hvernig við sjáum það, upplifum og mótum.

Stella hefur síðustu ár mest unnið með vatnsliti og teikningu í bland við stafræn verk en tók ákvörðun um að leggja áherslu á málverk unnin á striga árið 2022 og er nú með vinnustofu í Hafnarhúsinu. Þetta er hennar önnur sýning á árinu.

Sýningin er sölusýning og er opin á opnunartíma Hannesarholts, frá 11:30-16:00 alla daga nema sunnudaga og mánudaga. Jólalokun frá 24.desember til 8.janúar. Sýningin stendur til 14.janúar.