Vangaveltur – Málverkasýning Erlu Axels
14/10/2017 @ 14:00
Erla Axels opnar sýningu á nýjum verkum unnin í blandaða tækni, laugardaginn 14. október kl. 14, í Hannesarholti.
Um sýninguna segir Erla “í fjarlægð sé ég ofursmá hús í birtu borgarmarkanna og þegar ég lít mér nær sé ég mosann, grágrýtissprungur og breytileg jarðlög í klettum.”
Hún kýs að nefna sýninguna Vangaveltur, sem vísan í minningarbrot frá bernsku.
Erla stundaði nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík og síðar í Skidmore, Saratoga Springs, N.Y. Hún hefur dvalið í Kjarvalsstofu í París og sýnt verk sín bæði hér heima og erlendis.
Erla stofnaði Art-Hún vinnustofur og sýningarsal ásamt fjórum öðrum listakonum sem var rekið í tólf ár.
Hún fæst við olíuverk á striga og verk unnin með blandaðri tækni á “gesso” borinn pappír. Við vinnslu verkanna leyfir hún sér þá að fara út fyrir þægindarammann, ímyndunaraflið ræður för þar til verkið hefur öðlast sjálfstætt líf.
Vinnustofa/sýningarsalur Erlu er í Listaseli við Selvatn en þar hefur hún að mestu leyti sýnt sín verk síðastliðin tíu ár, en er nú komin í heimsókn í Hannesarholt. Kór frá Margréti Pálmadóttur tekur nokkur lög við opnunina
Sýningin er opin alla daga vikunnar frá kl 11:30 – 17:00 og til kl 22:00 á fimmtudögum og stendur í fjórar vikur.