Bygging hússins

Húsið að Grundarstíg 10 var byggt árið 1915 fyrir Hannes Hafstein fyrsta ráðherra Íslands og hefur margvíslegt menningarsögulegt gildi.

Húsið teiknaði Benedikt Jónasson verkfræðingur og þykir það ólíkt öðrum húsum í Reykjavík.  Þetta er voldugt tvílyft steinhús með mansardþaki, hátt til lofts og fallega skreyttir gifslistar í kverkum og í kringum ljósakrónur.

Benedikt var bæjarverkfræðingur í Reykjavík á árunum 1911-1916 og eru örfá hús þekkt eftir hann en húsið að Grundarstíg þykir bera þess vott að hann hafði næma tilfinningu fyrir byggingalist (sbr.Guðjón Friðriksson, „Ég elska þig stormur“, 2005, bls. 635 og Hörð Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I, 2000, bls. 321).

Húsið er meðal 15 elstu steinhúsa í Reykjavík og var byggt í kjölfarið á Reykjavíkurbrunanum árið 1915. Skriflegar heimildir benda til þess að bruninn hafi haft áhrif á gerð hússins.


Eigendur frá upphafi og til dagsins í dag

  • Hannes Hafstein fyrrv. ráðherra lét smíða húsið og flutti inn í október 1915, þá ekkjumaður ásamt fjölskyldu sinni.
  • Magnús Pétursson bæjarlæknir keypti húsið 1923 eftir andlát Hannesar (des. 1922).
  • Helgi Guðbrandsson sjómaður frá Akranesi og fjölskylda hans keyptu húsið árið 1928. Húsið var síðan í eigu ýmissa fjölskyldumeðlima til ársins 2007.
  • Ragnheiður J. Jónsdóttir og Arnór Víkingsson keyptu húsið í desember 2007.


Fróðleiksmolar

Sjá nánar ýmislegt varðandi húsið og lífið þar í gegnum tíðina.


Starfsemi og fleira í húsinu úr dagblöðum fyrri tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1918: Tapast hefur gullúr merkt R.H. (augl.)
  • 1922: Húsgögn til sölu – Ragnar E. Kvaran auglýsir, eiginmaður Þórunnar Hafstein, dóttur Hannesar Hafstein (augl.)
  • 1922: Undirritaður flytur mál fyrir undirrjetti og annast önnur lögfræðistörf. Viðtalstími 2 – 4 e.m. Grundarstíg 10. Sími nr. 5. Marino Hafstein (augl.)
  • 1922: Andlát Hannesar Hafstein: „Kl. 10 í gærmorgun andaðist Hannes Hafstein á heimili sínu hér í bænum og hafði hann, svo sem kunnugt er, svo árum skifti legið rúmfastur og oft sárþjáður.“ (Grein).
  • 1923: Húseignin á Grundarstíg 10 er til sölu (tilkynning)
  • 1923: Magnús Pjetursson, bæjarlæknir, flytur í dag á Grundarstíg 10 (áður hús Hannesar Hafstein). (Augl.)
  • 1923: Næturlæknir í nótt Magnús Pétursson Grundarstíg 10 (áður hús Hannesar Hafstein) – (Augl.)
  • 1923: Rauður hestur, stór og spengilegur, dálítið glófextur, með reiðbeisli með hringamélum (mark sýlt?), tapaðist í gærkveldi frá Grundarstíg 10. Skilist þangað eða til lögreglunnar (augl.)
  • 1927: Skólapiltur í lærdómsdeild óskar eftir herbergi með öðrum. Uppl. Grundarstíg 10, uppi. Sími 1185 (augl.) – Það var mikið leigt út á Grundarstíg 10 frá og með árinu 1923 skv. dagblaðaauglýsingum.
  • 1928: Maður, sem les undir gagnfræðapróf, utanskóla, óskar eftir 1-2 mönnum með sér í tímakenslu hjá ágætum, þektum kennurum. Uppl. á Grundarstíg 10, uppi (augl.)
  • 1929: Vandaðir legubekkir fást með sérstöku tækifærisverði, næsta daga á Grundarstíg 10, kjallaranum (augl.) – Á árunum 1929 – 1930 birtist fjöldi auglýsinga um dívana og legubekki til sölu á Grundarstíg 10.
  • 1929: Einkaskóli minn byrjar I. október. Nokkur börn geta komist að enn. Til viðtals heima kl. 4 – 6 og í síma 1131, kl. 6 – 7. Ísak Jónsson, Grundarstíg 10 (augl.) – Ísak leigði á Grundarstíg 10 og auglýsti mikið 1929.
  • 1931: Efnagerð Friðriks Magnússonar, var stofnsett árið 1931, á Grundarstíg 10… (tilkynning). Efnagerðin auglýsti mikið árið 1932 og 1933 meðan hún var þar til húsa.
  • 1933: Skip til sölu! Togarinn „Gustav Meyer“ er til sölu í því ástandi sem hann er nú á Reykjavikurhöfn. Skipið verð[ur] dregið á land tii eftirlits i slippinn í dag. — Nánari upplýsingar gefur Eínar M. Einarsson, skipherra, Grundarstíg 10. Sími 1854 (augl.)
  • 1936: Húsgagnaviðgerðir. Geri við alls konar húsgögn. Pólera upp gamla muni. Fljótt! Vel unnið!
    Ódýrt! Grundarstíg 10, niðri (augl.)
  • 1937: Til leigu gott kjallarapláss. Hentugt til vörugeymslu eða smáiðnaðar. Upplýsingar á Grundarstíg 10 (augl.)
  • 1942: Nokkrar stúlkur óskast við iðnað (við saum). Upplýsingar á Grundarstíg 10 í kjallaranum til kl. 6 næstu daga (augl.)
  • 1946: Sníðanámskeið. Nýtt námskeið byrjar um miðjan október. Dag- og kvöldnámskeið. Kenndar nýjustu aðferðir. Allar upplýsingar á Grundarstíg 10, kl. 2—6 e. h. Rósa Þorsteinsdóttir, meistari í kjólasaum (augl.) – Saumastofan flytur af Grundarstíg í ágúst 1947.
  • 1947: Ný snyrtistofa tekur til starfa á Grundarstíg 10 (augl.) – Anna Helgadóttir rak hana þar í mörg ár.
  • 1952: Lestrarfélag kvenna Reykjavík hefur flutt bókasafn sitt frá Laugaveg 39 á Grundarstíg 10 (tilkynning)
  • 1957: Kvenfólk og bækur eiga ekki saman. Rabbað við bókasafnarann og fornbókasalann Stefán Rafn, sem selur aldrei bækur nema hann eigi tvö eintök (grein)
  • 1966: Snyrtistofan Grundarstíg 10 verður lokuð septembermánuð vegna fjarveru minnar. Anna Helgadóttir (augl.)
  • 1988: Ævikvöld á Grundarstíg 10. (Um Hannes Hafstein). „Nú hefur hann ekki framar skap í sér til að rjúfa kyrrð hússins með glaumi og gáska dansandi æsku. Hann hjalar við dætur sínar á kvöldin, eða spilar við þær; kennir þeim treikort, flókið og fyndið spil, sem hann hafði lært í æsku, og finnur upp á ýmiskonar dundi til afþreyingar og hugarhægðar. Handa yngstu dætrunum býr hann til hálsfestar úr þurrkuðum melónukjörnum og appelsínukjömum, sem hann litar með rauðu bleki, svo þeir verða eins og kórallar.“ (grein)
  • 2007: Reisulegt hús Hannesar Hafstein (frétt)