Fyrir margt löngu síðan…

Á þeim stað þar sem nú heitir Grundarstígur 2 er talið að Erlendur Runólfsson hafi reist torfbæ árið 1833. Menn telja að bærinn hafi verið nefndur Berg frá upphafi og húsið handan götunnar sem nú er og tilheyrir Ingólfsstræti 23 var nefnt Norður-Berg. Erlendur þessi átti dóttur sem hét Sigríður sem giftist Zakaríasi Árnasyni en hann eignaðist bæinn síðar. Zakarías smíðaði rokka og gerði út bát. Hjónin eiga marga afkomendur meðal Reykvíkinga (1).

Til er skemmtileg frásögn frá árinu 1857 um Zakarías sem bjó á Bergi: „Þegar beituskrínan hvarf og hætta varð við róður.“ (2). Myndin hér ofar er af Pétri Ólafssyni formanni sem kemur við sögu í þessari frásögn.

Árið 1880 er bærinn rifinn og reist í staðinn steinhús (3).

1927 er samþykkt á bæjarstjórnarfundi í október að bærinn kaupi lóðina Grundarstíg 2 fyrir heilar 5900 krónur og láti rífa steinbæinn á henni sem „stendur fram í götulimma“…. – til að breikka götuna (4).


Bygging núverandi húss

Hjálmtýr Sigurðsson byggir Grundarstíg 2 (5). Húsið er steinhús, reist árið 1928 (6).

Athygli vekur að gluggar hússins á jarðhæð bera þess glöggt merki að þarna hefur verið verslunarhúsnæði og þegar rýnt er í gömul dagblöð kemur strax í ljós að það hefur verið mikil gróska í verslunarstarfsemi í þessu húsi.


Verslanir og önnur starfsemi í húsinu í gegnum tíðina

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

Þegar gramsað er í gömlum dagblaðaauglýsingum á timarit.is er af nógu að taka þegar um er að ræða starfsemi í húsinu við Grundarstíg 2. Þarna voru kjötbúðir, mjólkurbúðir, vefnaðarvöruverslanir, saumakonur, matstofa, bifreiðastöð, tískuverslun, sala ýmissa hjálpartækja bæði fyrir líkama og anda og einhver tengsl við almættið líka.

Það getur þó valdið ruglingi að til er Grundarstígur 2A sem stendur við hliðina á og stundum er ekki tekið sérstaklega fram þegar auglýst er að um sé að ræða starfsemi á 2A.

  • 1926: Verslun Ólafs Jóhannssonar (augl.)
  • 1929: Verslunin Víkingur (augl.)
  • 1930: Verslun Böðvars Jónsonar – nýlenduvöruverslun (augl.)
  • 1930: Montessori skóli fyrir börn 4 ára og eldri á vegum Önnu Bjarnadóttur frá Sauðafelli, 2. hæð (augl.)
  • 1930: Útsölustaður fyrir brauð frá J. Simonarson & Jónsson (augl.)
  • 1930 – 1931 a.m.k.:  Tízkubúðin Grundarstíg 2 (augl.)

 

  • 1930: Verslun Böðvars Jónssonar verður að Versluninni Skemman (augl.)
  • 1930: Íslensku spilin með myndum úr Íslendingasögunum er hægt að panta hjá Tryggva Magnússyni, Grundarstíg 2 (augl.)
  • 1931: Menn teknir í þjónustu á Grundarstíg 2, miðhæð (augl.)
  • 1932: Mjólkurbúð (augl.)
  • 1932, 1958, 1959: Kjötbúð Grundarstíg 2 – ekki ljóst hvort um er að ræða sömu búð allan tímann (augl.)
  • 1932: Bifreiðastöðin Hringurinn (augl.)
  • 1933: Dr. Björn Björnsson auglýsir þýskukennslu (augl.)
  • 1933 – 1945 a.m.k.: Kjötverslun Jóhannesar Jóhannssonar kaupmanns. Jóhannes hættir sjálfur 1951 (augl.)
  • 1933, 1945: Matsala Margrjetar Þórðardóttur árið 1933 (augl.) en ekki ljóst hvort um sömu aðila er að ræða 1945 en þá heitir matsalan Fróðá með annarri forstöðukonu (augl.)
  • 1933: Hárgreiðslustofan Grundarstíg (augl.)
  • 1933: Gott fæði í boði á Grundarstíg 2 (augl.)
  • 1934: Kosningaskrifstofa B listans fyrir Skólavörðuholt, gengið upp stiga (augl.)
  • 1934 – 1935: Útsölustaður Mjólkursamsölunnar og selt brauð frá Kaupfjelagi Reykjavíkur sömu ár (augl.)
  • 1934: Seld brauð og kökur frá Jóni Símonarsyni í verslun að Grundarstíg 2 (augl.)
  • 1936-1942 a.m.k.:  Halldóra Helgadóttir flytur saumastofu sína úr Bankastræti 10 á Grundarstíg 2 (augl.)
  • 1951: Saumaskapur (kvenkjólar og barnafatnaður) á vegum Þórunnar Eiríksdóttur, efstu hæð  (augl.)
  • 1952 – 1966 (líklega til 1969): Verslun Ólafs Jóhannessonar (efni, sokkar, smávörur ýmiskonar, garn)  (augl.)
  • 1956: Fiskbúðin Grundarstíg 2 (augl.)
  • 1959: Kjólasaumur: Kjólar sniðnir, mátaðir, hálfsaumaðir, eftir samkomulagi, 3. hæð (augl.)

  • 1961: Prjónastofa Anna Þórðardóttir, Grundarstíg 2 (augl.)
  • 1964: Dulspekiskólinn 1964 (augl.)
  • 1966: Dulræna útgáfan: Sigfús Elíasson, Grundarstíg 2 (augl.)
  • 1971: Lesið í lófa (augl.)
  • 1972: Segulbandsviðgerðir Stefáns Þórhallssonar lög. útv., áður hjá Snorra Arnar, Grundarstíg 12 (augl.)
  • 1974 – 1975 a.m.k. E.t.v. til 1982: Vefnaðarvöruverslunin Grundarstíg (augl.)
  • 1983: Stofnuð samtökin Stuðningsmenn fatlaðra á Íslandi með aðsetur á Grundarstíg 2 (augl.)
  • 1984: Stofnaður flokkur mannsins í húsakynnum Samhygðar við Grundarstíg 2 (augl.)
  • 1986: Fyrirtækið Fjármálaráðgjöf (augl.)
  • 1988: Verslunin Skírisskógur, seldi m.a. útvarpstæki í bíla (augl.)
  • 1989 – 1996: Verslunin Rómeó og Júlía sem seldi m.a. undirföt og hjálpartæki ástarlífsins (augl.)
  • 1991 -1993 a.m.k.: Verslunin Kristel, kvenundirföt, kjólar og korselett (augl.)
  • 1996: Í mars 1996 er verslunin Rómeó og Júlía flutt burt en fornbókaverslunin Bókin (áður Laugavegi 1) komin í staðinn og selur hjálpartæki menningarinnar… (augl.)
  • 1998: Sameining Bókavörðunnar (Bragi) og Bókarinnar í eina verslun. Bókin virðist fara af Grundarstíg og inn í Bókavörðuna á Vesturgötu (augl.)

Gamlar auglýsingar/fréttir af Grundarstíg 2

1928: Tilboð óskast í að smíða 4 snúna stiga og 2 pallstiga i húsið á Grundarstíg 2.
1961: Ráðist á fisksala?
1968: Gull í hlíðinni – skilaboð að handan á sambandsfundi með íbúa á Grundarstíg 2


Tenglar á timarit.is

ATH: til að opna greinar þarf að vera með nýjustu útgáfu af DjVu Browser Plugin og Adobe Reader Plugin sem hægt er að fá í gegnum timarit.is.

Heimildir

1. Páll Líndal. (1991). Reykjavík:  Sögustaður við Sund 1. b.: A-G bls. 182. Reykjavík: Örn og Örlygur.
2. Lesbók Morgunblaðsins, sunnudagur 2. mars 1952. Sótt 22. júli af http://www.timarit.is/view_page_init.jsp?issId=240693&pageId=3280111
3. Páll Líndal. (1991). Reykjavík:  Sögustaður við Sund 1. b.: A-G bls. 182. Reykjavík: Örn og Örlygur.
4. Alþýðublaðið, föstudaginn 7. október 1927. Sótt 22. júlí 2010 af http://www.timarit.is/view_page_init.jsp?issId=2469&pageId=10439
5. Minningargrein um Lucinde Sigurðsson og Hjálmtý Sigurðsson: Sótt 20. júlí 2010 af http://www.timarit.is/view_page_init.jsp?issId=123122&pageId=1719236
6. Fasteignaskrá Íslands. Sótt 22. júlí af http://www.fasteignaskra.is/Pages/1000?heitinr=1007051&landnr=101955&streetname=Grundarst%C3%ADgur+2&sveitarfelag=Reykjav%C3%ADk